Fótbolti

Zenit tilbúið að borga einn milljarð fyrir Viðar Örn

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. Vísir/Getty
Landsliðsmaðurinn Viðar Örn Kjartansson gæti verið á leiðinni til rússneska stórliðsins Zenit frá Pétursborg.

Rússneska stórveldið Zenit hefur samkvæmt heimildum 365 virkjað klásúlu í samningi Viðars við ísraelska liðið Maccabi Tel Aviv.

Kaupverðið mun vera níu milljónir Evra, eða rúmur milljarður króna.

Þess má geta að Viðar Örn þreytti frumraun sína í Evrópudeildinni með Maccabi Tel Aviv gegn Zenit í september í fyrra. Zenit vann 4-3 í hreint ótrúlegum leik. Viðar skoraði þá fyrir Maccabi, með fínum skalla á fimmtugustu mínútu.

Félagsskiptaglugginn í Rússlandi lokaði nýverið en, náist samningar á milli hans og félagsins gæti Viðar því gengið til liðs við Zenit í sumar. Zenit er sem stendur í öðru sæti efstu deildarinnar í Rússlandi, fimm stigum á eftir Spartak frá Moskvu.

Annað sætið gefur rétt á umspili í meistaradeildinni, en Zenit hefur leikið í deild þeirra sterkustu sex af síðustu átta tímabilum. Liðið vann Evrópukeppni félagsliða 2008 og hefur fimm sinnum orðið rússneskur meistari.

Heimavöllur félagsins tekur tæplega 70 þúsund manns og með liðinu leika þekktir leikmenn, á borð við Branislav Ivanovic, sem lék með Chelsea auk rússnesku landsliðsmannanna Aleksandr Kerzhakov, Artym Dzyuba og Aleksandr Kokorin.

Viðar Örn Kjartansson er markahæsti leikmaður ísraelsku deildarinnar með 15 mörk í 21 leik. Síðan hann fór út í atvinnumennsku til Valerenga í Noregi hefur hann skorað 79 mörk í 117 leikjum í efstu deildum í Noregi, Kína, Svíþjóð og Ísrael.


Tengdar fréttir

Viðar með þrennu í sigri Maccabi

Viðar Örn Kjartansson skoraði öll þrjú mörk Maccabi Tel Aviv þegar liðið vann 3-0 sigur á Shmona í ísraelsku úrvalsdeildinni í dag.

Viðar og félagar áfram á beinu brautinni

Viðar Örn Kjartansson var á sínum stað í byrjunarliði Maccabi Tel Aviv þegar liðið vann 0-1 útisigur á Maccabi Petah Tikva í ísraelsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×