Erlent

Á annan tug lét lífið í troðningi fyrir knattspyrnuleik

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Leikurinn fór fram í Uige í Angólu.
Leikurinn fór fram í Uige í Angólu. google
Að minnsta kosti sautján létu lífið og tæplega hundrað slösuðust í miklum troðningi við knattspyrnuvöllinn í borginni Uige í Angólu í kvöld. Fimm eru í lífshættu.

Yfir átta þúsund manns hugðust fylgjast með stórleik Santa Rita de Cássia og Libolo í kvöld. Allt fór hins vegar úr böndunum þegar byrjað var að hleypa inn á völlinn því fólk ýmist ruddist í gegnum inngönguhliðið eða leitaði annarra leiða til þess að komast inn á völlinn.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir viðstöddum að fjölmargir hafi verið miðalausir og að leikvangurinn hefði aldrei rúmað allan þann fjölda sem freistaði þess að fylgjast með leiknum, en leikvangurinn tekur alls átta þúsund manns.

Forstjóri spítalans í Uige segir í samtali við AFP að fólk hafi bókstaflega gengið ofan á hvoru öðru til þess að komast inn. Nú þegar hafi 76 manns leitað aðhlynningar, og 17 séu látnir. Þar af séu fimm alvarlega slasaðir.

Ekki fylgir frétt AFP hvort leikurinn hafi farið fram, þó það verði að teljast ólíklegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×