Erlent

Líkir Kúrdum við Íslamska ríkið

Samúel Karl Ólason skrifar
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. Vísir/AFP
Vilji Bandaríkin bjóða sýrlenskum Kúrdum að samningaborðinu í Sýrlandi, er alveg eins hægt að bjóða Íslamska ríkinu. Þetta er viðhorf yfirvalda í Tyrklandi varðandi friðarviðræðurnar sem fara fram í Kasakstan þann 23. janúar næstkomandi. Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna sagði í vikunni að Kúrdar yrðu á „einhverjum tímapunkti“ að koma að viðræðunum. Tyrkir urðu æfir yfir ummælunum.

„Ef þú ætlar að bjóða hryðjuverkasamtökum að borðinu má alveg eins bjóða Al Nusra og Daesh,“ sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrkja í dag.

Þar vísar hann til samtaka sem kallast nú Jabat Fateh al-Sham og hétu áður Nusra Front og tengjast al-Qaeda annars vegar og Íslamska ríkisins hins vegar.

Cavusoglu heimtaði að Bandaríkin myndu hætta að starfa með „hryðjuverkasamtökum“.

Sýrlenskir Kúrdar hafa verið mjög afkastamiklir gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi og hafa, með stuðningi Bandaríkjanna, lagt undir sig stóran hluta landsins í norðri. Þeir sækja nú gegn borginni Raqqa, sem er höfuðvígi ISIS, en Tyrkir gerðu innrás í Sýrlandi í fyrra, til að stöðva sókn Kúrda til vesturs.

Þeir óttast að velgengni Kúrda í Sýrlandi gæti verið sem olía á eld uppreisnar Kúrda í Tyrklandi, sem staðið hefur yfir í áratugi. Tyrkir hafa ítrekað lýst yfir reiði og vonbrigðum vegna samstarfs Bandaríkjanna við sýrlenska Kúrda.

Fyrr í vikunni birtist yfirlýsing frá Kúrdum í Sýrlandi og bandamönnum þeirra, sem sögðust ekki tengjast Verkamannaflokki Kúrda í Tyrklandi á nokkurn hátt. Yfirlýsingunni var tíst af U.SCentral Command. Tyrkir brugðust reiðir við og spurðu hvort að stjórnvöld í Washington hefðu „tapað vitinu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×