Innlent

Lögreglan skoðar tengsl grænlenskra sjómanna við hvarf Birnu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Grænlenski togarinn Polar Nanoq.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq. víðir már hermannsson

Lögreglan óskaði í morgun eftir og fékk lista yfir skipverja á grænlenska skipinu Polar Nanoq vegna rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Þetta hefur Vísir eftir heimildum en togarinn lét úr Hafnarfjarðarhöfn á laugardagskvöld. Skór sem lögregla segir að Birna hafi verið í nóttina sem hún hvarf fundust við höfnina í gærkvöldi, skammt frá þar sem togarinn var í höfn.

Fyrr í dag lagði lögregla hald á rauða Kia Rio-bifreið í Hlíðasmára í Kópavogi. Starfsmaður fyrirtækis í götunni hafði tekið bílinn á leigu í gær en var ekki með hann til umráða um helgina.

Rauður Kia Rio-bíll sást við Hafnarfjarðarhöfn
Samkvæmt heimildum Vísis voru Grænlendingar með bílinn á leigu á þeim tíma sem Birna hvarf en rauður Kia Rio-bíll sást í eftirlitsmyndavélum við Hafnarfjarðarhöfn á milli klukkan sex og hálfsjö á laugardagsmorgun. Skömmu áður, eða klukkan 5:50, kemur sími Birnu inn á símamastur við Flatahraun í Hafnarfirði en svo er slökkt á símanum.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, vill ekki staðfesta að þeir sem hafi verið með rauða Kio Rio-bílinn á leigu sem lögregla lagði hald á í dag séu áhafnarmeðlimir Polar Nanoq. Hann sagði að lögreglu hefðu borist töluvert af upplýsingum sem væri verið að vinna úr og að rannsóknin væri á viðkvæmu stigi.

Bíl ekið flóttalega í burtu
Fyrr í dag var greint frá því að lögregla rannsaki myndskeið úr eftirlitsmyndavél við áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Myndskeiðið er frá því á laugardagsmorgun klukkan 5:53 en á því sést rauður bíll, afar líkur þeim sem lögreglan hefur lýst eftir og birtir myndir af úr eftirlitsmyndavélum á Laugavegi.

Á myndskeiðinu sést hvernig bílnum er skyndilega ekið í burtu þegar ljós kviknar á eftirlitsmyndavél. 

Grímur lagði áherslu á það í samtali við Vísi að lögreglan viti ekki hvort að bíllinn sem hún lagði hald á í dag sé sami bíll og var á Laugavegi nóttina sem Birna hvarf. Þá sagði hann í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 að enginn væri grunaður í málinu, enginn yfirheyrður eða lýst eftir neinum.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 18:40.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.