Innlent

Lögregla hefur lagt hald á rauða Kia Rio bifreið

Kolbeinn Tumi Daðason, Sunna Karen Sigurþórsdóttir, Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sveinn Arnarsson skrifa
Bíllinn dreginn af bílastæðinu við Hlíðarsmára.
Bíllinn dreginn af bílastæðinu við Hlíðarsmára. Vísir
Tæknideild lögreglu sótti í hádeginu í dag rauða Kia Rio-bifreið sem var í leigu hjá starfsmanni fyrirtækis í Hlíðarsmáranum í Kópavogi. Umræddur starfsmaður tók bílinn á leigu í gær en hafði hann ekki til umráða um helgina. Samkvæmt öruggum heimildum fréttastofu höfðu erlendir ríkisborgarar tekið bílinn á leigu seinni partinn á föstudegi og skiluðu þeir honum af sér á laugardegi.

Fram hefur komið að rauð Kia Rio-bifreið sást á eftirlitsmyndavél á Laugaveginum um það leyti sem Birna Brjánsdóttir sást síðast, klukkan 5:25 að morgni laugardags. Síðan hefur ekkert til hennar spurst. Skór sem taldir eru vera hennar fundust við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi.

Bíllinn er fimm dyra rauður Kia Rio, árgerð 2015, sem passar við þá bifreið sem lögreglan hefur verið að leita að. Bíllinn var áður talinn þriggja dyra en lögregla hefur áréttað að um fimm dyra bíl sé að ræða.

Þurfa mögulega að leggja hald á fleiri bíla

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu, staðfestir að lögreglan hafi lagt hald á bílinni í tengslum við rannsóknina en vill ekkert segja varðandi það hver var með bílinn á leigu og hvenær. Þá segir hann aðspurður að enginn hafi réttarstöðu sakbornings í málinu. Hann útilokar ekki að ökumaður bílsins sem lögreglan leitar enn að sé farinn úr landi.

Alls eru 126 rauðir Kia Rio-bílar af þessari gerð á landinu. Grímur segir mögulegt að lögreglan þurfi að leggja hald á fleiri bíla í tengslum við rannsóknina.

„Það er alveg mögulegt að við þurfum að leggja hald á einn eða tvo eða fleiri í þessari rannsókn til að staðfesta eitthvað eða til að staðfesta að einhver grunur sé ekki eins og við höfum haldið. Þessi bíll er hluti af rannsókn málsins en ég get ekkert staðfest meira en það, hvort það hafi verið einhverjar vísbendingar í bílnum,“ segir Grímur.

Lögreglan gengur út frá því og miðar það við símagögn að Birna hafi farið upp í bíl í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags, þegar seinast sást til hennar á Laugavegi, og farið með bílnum áleiðis til Hafnarfjarðar þar síminn hennar næst á merki við Flatahraun áður en einhver slekkur á honum. Ekki liggur þó ljóst fyrir hvar í miðbænum hún fór upp í bílinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×