Erlent

Hætta leit að MH370 eftir tvær vikur

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugvélin hvarf þann 8. mars 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Um borð voru 239 manns og flestir þeirra frá Kína og Malasíu.
Flugvélin hvarf þann 8. mars 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Um borð voru 239 manns og flestir þeirra frá Kína og Malasíu. Vísir/AFP
Leit að týndu malasísku flugvélinni MH370 verður hætt eftir tvær vikur. Þá verður leit lokið á um 120 þúsund ferkílómetra svæði í Indlandshafi þar sem sérfræðingar töldu að flugvélin hafi brotlent. Rannsakendur mældu með því í síðasta mánuði að leitarsvæðið yrði stækkað til norðurs um 25 þúsund ferkílómetra, vegna þess að mögulega hefur leitin farið fram á röngum stað.

Samgöngumálaráðherra Malasíu, Liow Tiong Lai, tilkynnti í dag að leitinni yrði hætt þegar búið væri að leita á gamla svæðinu. Það yrði ekki stækkað þar sem engar „trúverðugar“ vísbendingar hefðu litið dagsins ljós.

Flugvélin hvarf þann 8. mars 2014 á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Um borð voru 239 manns og flestir þeirra frá Kína og Malasíu. Þar af voru tólf áhafnarmeðlimir. Ljóst þykir að flugvélinni hafi verið flogið þúsundir kílómetra úr leið og að hún hafi farið í sjóinn vestur af Ástralíu.

Dýpið á svæðinu er mikið. Það er allt að sex kílómetrar og má finna gríðarstór gljúfur og fjöll á hafsbotninum. Heildarkostnaður leitarinnar um sextán milljarðar króna.

33 hlutir hafa fundist sem eru taldir vera af flugvélinni. Þar á meðal eru hlutar vængja og stéls flugvélarinnar. Þeir hafa fundist á Reunion eyju, Mósambík, Tansaníu, Suður-Afríku og Máritíus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×