Erlent

Fullyrða að Pútín hafi fyrirskipað afskipti af forsetakosningunum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Yfirvöld telja að Pútín hafi vísvítandi reynt að grafa undan kjörþokka Hillary Clinton.
Yfirvöld telja að Pútín hafi vísvítandi reynt að grafa undan kjörþokka Hillary Clinton. Vísir/Getty
Yfirmenn leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna hafa opinberað skýrslu um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum.

„Við fullyrðum af miklu öryggi að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, fyrirskipaði afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016,“ segir í skýrslunni.

„Markmið þeirra voru að grafa undan trúverðugleika á lýðræði í Bandaríkjanum, sverta orðspor Hillary Clinton og skaða kjörþokka hennar og mögulega forsetatíð. Við teljum enn fremur að Pútín og rússneska ríkisstjórnin hafi haft augljóst dálæti á verðandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump.“

Yfirvöld telja að tilefni afskiptanna hafi verið hefnd Pútín gegn Clinton.

„Hann hefur opinberlega kennt henni um að hafa hvatt til fjöldamótmæla gegn stjórn sinni á árunum 2011 og 2012.“

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, fékk skýrslu um stöðu mála fyrr í dag og sagði hann fundinn hafa verið uppbyggilegan, en neitaði að taka opinberlega undir niðurstöðu skýrslunnar.

Trump sagði að afskiptin hefðu ekki haft áhrif á niðurstöðu kosninganna, en í skýrslunni segjast yfirvöld ekki vera í stöðu til að meta það að svo stöddu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×