Enski boltinn

Liverpool vinnur ensku úrvalsdeildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fagna Klopp og strákarnir í vor?
Fagna Klopp og strákarnir í vor? vísir/getty
Liverpool verður meistari í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í vor. Það finnst allavega meirihluta þeirra lesenda Vísis sem tóku þátt í könnun í síðustu viku þar sem spurt var: Hvaða lið verður enskur meistari?

Lærisveinar Jürgens Klopps eru í flottum málum í öðru sæti deildarinnar með 44 stig, fimm stigum á eftir toppliði Chelsea sem tapaði loks á dögunum eftir að vinna þrettán leiki í röð.

Þrátt fyrir forskotið á toppnum eru „aðeins“ 28 prósent lesenda Vísis á því að Lundúnarliðið haldi út og verði meistari en 35 prósent telja að Liverpool fari alla leið. Liverpool er næst sigursælasta félagið á Englandi á eftir Manchester United en það hefur ekki orðið enskur meistari síðan 1990.

Manchester United, sem er í sjötta sæti með 39 stig, tíu stigum á eftir Chelsea, er þriðja líklegasta liðið til að verða meistari að mati lesenda en það fékk 21 prósent þeirra tæplega 3.000 atkvæða sem bárust. Hjartað kannski svolítið að ráða för hjá sumum lesendum þar en United er vissulega búið að vinna sex leiki í röð í deildinni.

Trúin er ekki mikil á Tottenham og Arsenal en minnst á Pep Guardiola og hans stráka í Manchester City sem fengu aðeins tvö prósent atkvæða.

Úrslit könnunarinnar má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×