Fótbolti

Heimir valdi Suárez og Klopp sem leikmann og þjálfara ársins 2016

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir á landsliðsæfingu í Kína í dag.
Heimir á landsliðsæfingu í Kína í dag. vísir/getty
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, valdi Luis Suárez og Jürgen Klopp sem leikmann og þjálfara ársins 2016.

Í dag var greint frá því hverjir væru leikmenn og þjálfarar ársins 2016 í karla- og kvennaflokki við hátíðlega athöfn í Zürich.

Heimir Hallgrímsson, landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og Víðir Sigurðsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, voru með atkvæðisrétt í karlaflokki.

Heimir valdi sem áður Suárez sem leikmann ársins. Cristiano Ronaldo, sem var valinn leikmaður ársins 2016, var í 2. sæti á lista Heimis og Antonie Griezmann í því þriðja.

Að mati Heimis var Jürgen Klopp þjálfari ársins, Fernando Santos, þjálfari Evrópumeistara Portúgals, var í 2. sæti hjá Eyjamanninum og Chris Coleman, þjálfari velska landsliðsins, í því þriðja. Claudio Ranieri, sem var valinn þjálfari ársins, var ekki á lista Heimis.

Aron Einar valdi Ronaldo sem leikmann ársins og Ranieri sem þjálfara ársins. Víðir var einnig með Ranieri efstan á blaði en hann valdi Lionel Messi sem leikmann ársins.

Leikmenn og þjálfarar ársins 2016 með verðlaun sín.vísir/getty
Víðir var einnig með atkvæðisrétt í valinu á leikmanni og þjálfara ársins í kvennaflokki, ásamt landsliðsþjálfaranum Frey Alexanderssyni og landsliðsfyrirliðanum Margréti Láru Viðarsdóttur.

Carli Lloyd var valin leikmaður ársins og hún var efst á blaði hjá Frey. Víðir var með Lloyd í 3. sæti en hún komst ekki á lista Margrétar Láru sem valdi hina þýsku Dzsenifer Marozsán sem leikmann ársins.

Margrét Lára valdi hins vegar Silviu Neid sem þjálfara ársins en hún fékk flest atkvæði í kjörinu.

Freyr valdi Jill Ellis, þjálfara bandaríska landsliðsins, sem þjálfara ársins og Gérard Precheur, þjálfari Evrópumeistara Lyon, var efstur á blaði hjá Víði.

Karlaflokkur:

Heimir Hallgrímsson

Leikmaður: 1. Luis Suárez, 2. Cristiano Ronaldo, 3. Antoine Griezmann

Þjálfari: 1. Jürgen Klopp, 2. Fernando Santos, 3. Diego Simeone

Aron Einar Gunnarsson

Leikmaður: 1. Cristiano Ronaldo, 2. Luis Suárez, 3. Antoine Griezmann

Þjálfari: 1. Claudio Ranieri, 2. Fernando Santos, 3. Diego Simeone

Víðir Sigurðsson

Leikmaður: 1. Lionel Messi, 2. Cristiano Ronaldo, 3. Luis Suárez

Þjálfari: 1. Claudio Ranieri, 2. Fernando Santos, 3. Chris Coleman

Kvennaflokkur:

Freyr Alexandersson

Leikmaður: 1. Carli Lloyd, 2. Camille Abily, 3. Melanie Behringer

Þjálfari: 1. Jill Ellis, 2. Martina Voss-Tecklenburg, 3. Pia Sundhage



Margrét Lára Viðarsdóttir

Leikmaður: 1. Dzsenifer Marozsán, 2. Camille Abily, 3. Lotta Schelin

Þjálfari: 1. Silvia Neid, 2. Gérard Precheur, 3. Pia Sundhage

 

Víðir Sigurðsson

Leikmaður: 1. Amandine Henry, 2. Dzsenifer Marozsán, 3. Carli Lloyd

Þjálfari: 1. Gérard Precheur, 2. Philippe Bergeroo, 3. Silvia Neid




Fleiri fréttir

Sjá meira


×