Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, er með tilboð í höndunum frá Kína eins og kom fram í morgun en hann ætlar ekki að yfirgefa Old Trafford fyrir þriðjudaginn þegar félagaskiptaglugginn lokar þar í landi.
Þetta herma heimildir Sky Sports en ensku blöðin slógu því mörg hver upp í morgun að Rooney yrði seldur til Kína á næstu dögum. Hann var sagður fara á 52 milljónir punda og að Rooney sjálfur myndi fá eina milljón punda í vikulaun.
Kínversku meistararnir Guangzhou Evergrande sem Felipe Scolari stýrir eru sögð vilja fá Rooney sem og Beijing Guoan sem hafnaði í fimmta sæti á síðustu leiktíð. Bæði eru búin að leggja fram tilboð í framherjann.
Rooney á hálft annað ár eftir af samningi sínum en ætlar ekki að fara frá Manchester United núna samkæmt Sky Sports. Hann hefur ekki spilað vegna meiðsla síðan 1. febrúar.

