Einn þriggja skipverja, sem grunaður er um aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur, var í Héraðsdómi Reykjaness í dag úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.
Lögreglan fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald og ætlar því að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.
Alls voru þrír handteknir í tengslum við málið. Tveir þeirra voru fluttir í Héraðsdóm Reykjaness í hádeginu í dag en aðeins er búið að færa annan þeirra fyrir dómara. Mennirnir tveir voru handteknir í hádeginu í gær og frá þeim tíma má lögregla halda þeim í sólarhring án gæsluvarðhaldsúrskurðar. Sá frestur rann út í hádeginu í dag.
Mennirnir þrír voru yfirheyrðir í alla nótt og þá lauk rannsókn um borð í skipinu snemma í morgun. Þriðji maðurinn var handtekinn á níunda tímanum í gærkvöld og getur lögregla því haldið honum til sama tíma í kvöld áður en fara þarf fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Fréttin verður uppfærð.
