Að minnsta kosti fjögur hundruð manns hafa þurft að flýja heimili sín og um það bil 150 hús hafa þegar brunnið.
Skógareldarnir kviknuðu síðdegis á mánudag í grennd við vatnið Laguna Verde og náði að breiðast út til Playa Ancha, þar sem mikill fjöldi er af húsum úr tré. Talsverður lofthiti er í Síle um þessar mundir og hefur hann gert slökkviliðsmönnum erfitt um vik.

Valparaíso er strandbær, skammt norðvestan af Santiago, höfuðborg Síle. Borgin er sjötta stærsta borg landsins, með rúmlega 260 þúsund íbúa. Hún er vinsæll ferðamannastaður og hefur mikla sögu- og menningarlega þýðingu fyrir land og þjóð. „Gamli bærinn“ í Valparaíso komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 2003.
Miklir skógareldar brunnu í borginni árið 2014 og urðu þá sextán manns að bana.