Til átaka hefur komið á milli óeirðarlögreglu og mótmælenda í Hamborg í Þýskalandi þar sem leiðtogar G20-ríkjanna funda. Breska ríkisútvarpið BBC segir að í það minnsta einn maður hafi slasast alvarlega í átökunum.
Óeirðirnar brutust út þegar lögreglumenn réðust gegn hópi andkapítalískra mótmælenda í göngu sem þúsundir manna tóku þátt í. BBC segir að mótmælendurnir hafi verið með skilti með áletrunum á borð við „Velkomin til heljar“ og „Rústum G-20“.
Lögreglumenn beittu vatnsþrýstibyssum og piparúða á grímuklædda mótmælendur sem svöruðu með því að láta flöskum, steinum og blysum rigna yfir lögreglu.
Hermt er að skemmdir hafi orðið á fyrirtækjum og kveikt hafi verið í bifreið. Skipuleggjendur göngunnar aflýstu henni vegna ofbeldisins en lögregla segir að margir mótmælendur hafi orðið eftir á götunum.
Gert hefur verið ráð fyrir um hundrað þúsund mótmælendum í Hamborg vegna G-20-fundarins
