Íslenski boltinn

Sandra María með fyrsta markið sitt og Þór/KA vann sjötta leikinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen. Vísir/Anton
Þór/KA náði aftur þriggja stiga forystu á toppi Pepsi-deildar kvenna eftir 3-1 sigur á ÍBV á Akureyri í kvöld. Þetta er sjötti sigur Þór/KA liðsins í sex leikjum.

Breiðablik var komið á toppinn á markatölu eftir stórsigur á KR í gærkvöldi en norðankonur endurheimtu toppsætið með góðum sigri á Eyjakonum.

Hulda Ósk Jónsdóttir, Stephany Mayor og Sandra María Jessen skoruðu mörk Þór/KA í dag. Hulda Ósk og Stephany Mayor hafa verið duglegar að skora í sumar en þetta var fyrsta mark Söndru Maríu eftir að hún snéri til baka eftir meiðslin sem hún varð fyrir í landsleik í Algarve-bikarnum í mars.

Hulda Ósk Jónsdóttir kom Þór/KA í 1-0 á 18. mínútu eftir undirbúning Stephany Mayor en Sigríður Lára Garðarsdóttir jafnaði fyrir ÍBV úr vítaspyrnu á 37. mínútu.

Þór/KA liðið hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í fyrstu sex leikjunum og þau hafa bæði komið úr vítaspyrnum.

Staðan var 1-1 þar til níu mínútum fyrir leikslok þegar Stephany Mayor skoraði úr markteig eftir hornspyrnu Nataliu Gomez.

Sandra María Jessen innsiglaði síðan sigurinn á 86. mínútu með laglegum skalla eftrir aðra stoðsendingu frá Gomez.

Sandra María er öll að koma til en hún hefur komið inná sem varamaður í síðustu leikjum og lagði meðal annars upp mark í leiknum á undan. Sandra María kom inná sem varamaður í hálfleik í dag.

Þetta var enn eitt stóra prófið sem Þór/KA liðið stenst með glans. Þór/KA hefur nú unnið heimaleiki á móti Val, Breiðabliki og ÍBV sem eru allt lið sem ætla sér mikið í sumar.

Upplýsingar um gang leiksins eru meðal annars fengnar frá fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×