Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, segir það algjört bull að miðjumaðurinn Aleksandar Trninic sé vísvitandi að reyna að meiða andstæðinga sína.
Trninic var tekinn fyrir í Pepsi-mörkunum í gær og sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson meðal annars að hann reyndi að fótbrjóta menn.
„Þetta er maður sem spilar hart og gerir allt fyrir liðið og liðsfélaga sína. Í leiknum í gær voru tæklingarnar fastar en hann lærir af þessu. Það eru öðruvísi reglur en í Serbíu en hérna og hann er kannski enn að venjast," sagði Tufegdzic í viðtali við fótbolta.net.
„Hann hefur verið mikilvægur fyrir okkur og spilað rosalega vel. Ég hef rætt við hann, hann mun laga litla hluti og þetta verður í góðum málum."
Sjá einnig:Pepsi-mörkin: 95 kílóa þurs sem hrynur niður við minnsta tilfelli og reynir að fótbrjóta menn
„Það eru aðrir leikmenn sem spila þessa stöðu í deildinni sem eru með svipaðar tæklingar. Var ekki Roy Keane að gera þetta fyrir United í 20 ár? Liðið vann allt með Ferguson. Trninic er mikill keppnismaður og þetta var alls ekki viljaverk hjá honum að reyna að meiða leikmenn. Þetta er leikmaður sem er til í að deyja fyrir liðið og stundum fer hann kannski yfir línuna. Ég veit sjálfur að hannn er að vinna í að minnka þetta, hann er líka kominn á þann aldur að hann þarf að passa sig til að spila lengur."
„Alls ekki. Það er algjört bull að hann reyni að fótbrjóta menn. Þessar týpur af leikmönnum fara í svipaðar tæklingar. Hann er búinn að spila fast í allt sumar og menn fara líka fast í hann. Það má ekki gleyma því. Það sást líka í þessum klippum," sagði Túfa.
Túfa kemur Trninic til varnar

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - KA 0-0 | Mark dæmt af KR á lokamínútunum
KR hefur gengið illa á heimavelli að undanförnu og í dag varð engin breyting þar á.