Erlent

Mældu gríðarlega bráðnun viðkvæmrar íshellu

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattamynd af hluta Ross-hafs og íshellunnar við Suðurskautslandið.
Gervihnattamynd af hluta Ross-hafs og íshellunnar við Suðurskautslandið. Vísir/AFP/NASA
Gríðarleg bráðnun íss átti sér stað á víðfeðmum hluta af hafíshellu Suðurskautslandsins síðasta sumar. Svæði sem er hátt í átta sinnum stærra en Ísland að flatarmáli var þakið bráðnunarvatni í allt að fimmtán dögum samkvæmt fjarmælingum vísindamanna.

Ross-íshellan á Vestur-Suðurskautslandinu er stærsta fljótandi íshella jarðarinnar. Vísindamenn hafa óttast um afdrif hennar í hlýnandi heimi undanfarin ár og telja að hún geti brotnað algerlega upp. Bráðnunarviðburðurinn sem þeir mældu yfir sumarmánuðina á suðurhveli í fyrra gerir lítið til að lina áhyggjur þeirra, samkvæmt frétt Washington Post.

Vísindamennirnir sem koma frá Scripps-hafrannsóknastofnuninni og Ohio-ríkisháskóla auk fleiri stofnana grunaði að eitthvað væri á seyði þegar mælitæki þeirra á Vestur-Suðurskautslandinu sýndu mikla hlýnun andrúmslofts og ský sem báru með sér mikinn raka. Örbylgjugervihnattarmælingar sýndu þeim síðan umfang bráðnunarinnar sem átti sér stað.

Örbylgjumælingar sýndu í hversu marga daga bráðnun hafði átt sér stað á svæðinu.mynd/Julien Nicolas
Fátíð rigning kom vísindamönnum í opna skjöldu

Íshellan var þó ekki hulin stöðuvötnum bráðnunarvatns heldur segir David Brownwich frá Ohio-háskóla að vatnið hafi sigið ofan í snjóinn og myndað krapa. Bráðunin átti sér stað þegar sterkur El niño-viðburður átti sér stað. Veðurfyrirbrigðið flytur oft verulegan varma til Suðurskautslandsins.

Sá fátíði viburður virðist einnig hafa gerst að regn hafi fallið á íshelluna og kom það vísindamönnunum í opna skjöldu. Rannsakendurnir birtu grein um athuganir sínar í vísindaritinu Nature Communications.

Þó að bráðnun íssins í Ross-hellunni stuðli ekki að hækkun yfirborðs sjávar óttast menn að ef hún lætur undan síga eigi landís af meginlandi Suðurskautslandsins greiða leið út í hafið. Það myndi hækka sjávarstöðu með verulegum áhrifum á strandbyggðir manna. 

Vísindamenn hafa áætlað að bráðnun á Suðurskautslandinu geti ein og sér hækkað yfirborð sjávar um 1,2 metra á þessari öld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×