KA er komið í ansi góða stöðu í Inkasso-deild karla eftir 3-1 sigur á Leikni Reykjavík á Akureyri í dag. Þrjú rauð spjöld fóru á loft á Seyðisfjarðavelli.
Akureyrarliðið gerði út um leikinn í fyrri hálfleik, en þeir skoruðu þrjú mörk á fyrstu 25 mínútum leiksins.
Hallgrímur Már Steingrímsson skoraði tvö mörk og Juraj Grizelj eitt, en Atli Arnarson minnkaði muninn fyrir Leikni í síðari hálfleik.
KA er í öðru sæti með 36 stig, stigi á eftir Grindavík sem er á toppnum. KA er með tíu stiga forskot á Keflavík sem er í þriðja sæti þegar fimm umferðir eru eftir.
Þrjú rauð spjöld foru á loft á Seyðisfjarðavelli þegar Þór vann 2-1 sigur á Huginn. Ármann Pétur Ævarsson skoraði fyrsta mark leiksins á 10. mínútu áður en rauðu spjöldin fóru að fljúga.
Orri Sveinn Stefánsson fékk að líta rautt spjald á 18. mínútu í liði Hugins og fimm mínútum síðar fauk Elmar Bragi Einarsson einnig útaf.
Staðan 1-0 fyrir Þór í hálfleik, en Guðmundur Óli Steingrímsson fékk að líta rautt spjald á 54. mínútu. Marko Nikolic jafnaði fyrir Huginn af vítapunktinum á 61. mínútu.
Sigurmarkið kom svo ellefu mínútum fyrir leikslok þegar Gunnar Örvar Stefánsson skoraði af vítapunktinum og 2-1 sigur Þórs staðreynd.
Þór er í fjórða sætinu með 26 stig, en Huginn er í fallsæti, 16 stig, einu stigi frá öruggu sæti.
Úrslit og markaskorar eru fengnir frá úrslit.net.
KA stefnir hraðbyri í Pepsi | Þrjú rauð á Seyðisfirði
Anton Ingi Leifsson skrifar