Fótbolti

Heimir: Alveg sama hvort markið hafi verið ólöglegt eða hvað Backe segir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heimir Hallgrímsson stýrði íslenska liðinu í fyrsta skipti án Lars Lagerbäck á Laugardalsvelli í kvöld.
Heimir Hallgrímsson stýrði íslenska liðinu í fyrsta skipti án Lars Lagerbäck á Laugardalsvelli í kvöld. vísir/anton
„Þetta er ofboðslegur léttir. Það er fyrsta orðið sem ég hugsa um,“ sagði Heimir Hallgrímsson þegar hann var beðinn um að lýsa því hvað sigurinn gegn Finnum í kvöld hefði fyrir liðið, og hann. Allt stefni í 2-1 tap á heimavelli en eftir ótrúlegar lokamínútur fögnuðu okkar menn sigri, 3-2.

Heimir taldi marga hafa vanmetið Finna, þar á meðal íþróttafréttamenn, sem væru sterkt lið sem öll lið muni lenda í vandræðum með. 

„Það er frábært að vera kominn með fjögur stig sem er flott byrjun. Það gefur okkur aðeins meiri afslöppun fyrir leikinn gegn Tyrkjum,“ sagði Heimir en okkar menn mæta Tyrkjum í Laugardalnum á sunnudaginn.

„Það verður erfitt að ná í öll stig í þessum riðli.“

Alveg sama hvort markið hafi verið ólöglegt

Sigurmark Íslands var vægast sagt umdeilt, að mörgu leyti eins og þjálfari Finna kom inn á á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Ég sá markið í endursýningu,“ sagði Heimir en það hefði ekki hjálpað mikið. Tuttugu leikmenn að reyna ýmist að koma boltanum í markið eða í burtu. Hans Backe sagði markið hafa verið ólöglegt, og hneyksli.

„Mér er í rauninni alveg sama, hvort markið hafi verið löglegt og hvað Backe segir,“ bætti Heimir við.

„Ég elska að við höfum skorað.“

Að neðan má sjá mörkin úr leiknum í kvöld.

Stórkostlegur karkater

Heimir sagðist að mörgu leyti hafa verið farinn að gefa upp von. 

„Þetta var svona stöngin út leikur. Í hvert skipti sem boltinn datt dauður þá hirtu þeir lausa boltann,“ sagði þjálfarinn. Það hefði verið óvenjulegt að Gylfi skoraði ekki úr víti.

„Þetta var einn af þessum leikjum sem við gátum ekki unnið,“ sagði Eyjapeyinn. Þegar leikmenn sýni svona karakter eigi lið alltaf möguleika á sigri.

„Það er það stórkostlega við þennan hóp.“

Framundan er leikur gegn Tyrkjum á sunnudaginn í þriðju umferð undankeppninnar.

Að neðan má sjá umfjöllun um leikinn, einkunnir leikmanna og viðtöl við einstaka leikmenn.


Tengdar fréttir

Alfreð: Þetta var bara eitthvað rugl

Alfreð Finnbogason, framherji Íslands, var að vonum ánægður með sigurinn í leikslok, en Alfreð jafnaði metin í uppbótartíma eftir fyrirgjöf Gylfa Sigurðssonar.

Ragnar: Tek markið 100% á mig

Ragnar Sigurðsson, varnarmaður Íslands, var himinlifandi með 3-2 sigurinn gegn Finnum í kvöld og segir að sigurmarkið hafi 100% verið hans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.