Fótbolti

Ragnar: Tek markið 100% á mig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ragnar í baráttunni í kvöld.
Ragnar í baráttunni í kvöld. vísir/anton
Ragnar Sigurðsson, varnarmaður Íslands, var himinlifandi með 3-2 sigurinn gegn Finnum í kvöld og segir að sigurmarkið hafi 100% verið hans.

„Nei, ég sá það ekki, en það var dæmt mark og ég tek þetta mark 100% á mig," sagði Ragnar í samtali við Vísi í leikslok, en markið umtalaða má sjá hér.

„Það er búið að dæma þetta og það er ekki hægt að breyta þessu, en það er auðvitað alltaf skemmtilegra ef allt er "fair and square". Við tökum þessi þrjú stig og erum skítsama um hitt."

„Þegar við höfum þurft mark þá trúum við á það. Þegar við höfum trú á því þá dettur það inn," en fór engin ónotatilfinning um Ragnar þegar hann sá að boltinn var ekki á leiðinni inn?

„Maður byrjaði að hugsa það á tímabili, en maður er búinn að vera í þessu frekar lengi núna og maður veit að það þarf svo lítið til þess að boltinn fari inn."

„Það besta sem við getum gert er að klára leikina eins og við erum vanir að gera."

„Ég er sérstaklega ósáttur með síðara markið. Það er erfitt að eiga við fyrirgjafir og stundum er maður frír í teignum, en í síðari markinu erum við bara ekki nægilega grimmir."

Ragnar segir að yfirleitt sé hann mjög ósáttur með að fá á sig tvö mörk, en hann líti framhjá því í ljósi sigursins í kvöld.

„Það er mjög pirrandi. Vanalega væri ég ógeðslega pirraður að hafa fengið á mig tvö mörk, en þetta var svo ógeðslega sætur sigur að mér er bara alveg sama."

„Þegar þetta spilast ekki eins og við viljum þá verðum við að vinna leikina svona. Mér finnst frábært að við getum unnið leiki á svona marga vegu. Það sýnir bara hversu góðan hóp og frábært lið við erum með," sagði Ragnar virkilega sáttur í leikslok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×