Erlent

Skothríð og sprenging við Ameríska háskólann í Kabúl

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skólinn var stofnaður árið 2006.
Skólinn var stofnaður árið 2006. Mynd/Wikipedia
Að minnsta kosti einn er látinn og tólf eru slasaðir eftir árás sem gerð var á Ameríska háskólann í Kabúl í dag. Í frétt BBC kemur fram að mikil sprenging hafi orðið við skólann og þá segja nemendur að þeir hafi einnig heyrt skothríð.

Þannig hefur BBC eftir einum nemanda að hann hafi verið skammt frá aðalinngangi háskólans þegar hann heyrði sex eða tíu skot og mikla sprengingu. Sprengingunni fylgdi mikið ljós sem lýsti upp allt svæðið í skamma stund. Þá heyrði nemandinn fleiri skot inni á háskólasvæðinu sjálfu.

Fyrir um tveimur vikum var tveimur starfsmönnum skólans rænt af vopnuðum mönnum. Annar starfsmaðurinn er ástralskur, hinn er bandarískur en þeir eru enn ófundnir.

Skólinn var stofnaður árið 2006, en um þúsund nemendur sækja nám við skólann sem stendur við Darulamangötu í suðvesturhluta borgarinnar.

Fréttin var uppfærð klukkan 19:16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×