Innlent

Læknir ekki látinn svara fyrir fölsun

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hlédís Sveinsdóttir
Hlédís Sveinsdóttir
Yfirlæknir kvennadeildar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hefur ekki verið látinn svara fyrir meintar rangfærslur á atvikaskráningarblaði sem sent var landlæknisembættinu eftir mistök sem áttu sér stað í og eftir fæðingu árið 2011.

Konan, Hlédís Sveinsdóttir, skrifar grein í blað dagsins um málið. Þar kemur fram hún hafi sent málið í þrígang til Ríkissaksóknara á síðustu tveimur árum. Tvisvar hefur verið farið fram á að lögreglan á Vesturlandi rannsaki það, án þess að læknirinn sé spurður út í aðalatriði málsins.

Í atvikaskráningu er skrifað að súrefnisskortur sem barnið varð fyrir hafi stafað af því að naflastrengur hafi verið strekktur og vafinn um háls barns. Myndbandsupptökur af fæðingunni hafa aftur á móti afsannað það. Einnig eru viðbætur á barnablaði sem skrifaðar eru með öðrum penna en upphaflega skýrslan. „Allt til að fegra málsatvik,“ segir Hlédís.

Hlédís segir engan taka ábyrgð. „Öllum virðist vera ljóst hvers kyns var, en á meðan enginn játar gulnar þetta mál í möppum og er vísað frá,“ segir Hlédís. „Ég skora á stjórnendur heilbrigðisstofnunarinnar að taka ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru innan veggja sjúkrahússins þannig að hægt sé að læra af þeim.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×