Enski boltinn

Sakho virti ekki reglur Liverpool og fundar með Klopp eftir átta daga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mamadou Sakho er eini liðsmaður Liverpool á Englandi.
Mamadou Sakho er eini liðsmaður Liverpool á Englandi. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, talaði í gærkvöldi í fyrsta sinn um skömmustulega heimferð Mamadou Sakho úr æfingaferð liðsins í Bandaríkjunum.

Sakho var óvænt sendur heim áður en Liverpool spilaði fyrsta leikinn í æfingaferðinni en það tapaði gegn Chelsea í Kaloforníu í nótt, 1-0.

„Við erum með reglur hérna og það þarf að virða þær,“ sagði Klopp. „Eftir átta daga, þegar við komum til baka, getum við talað saman. Þetta er samt ekkert svo alvarlegt. Við rifumst ekkert. Það er ekki hægt að rífast þegar bara annar aðilinn talar.“

Fram kom í myndbandi á heimasliðu Liverpool um æfingaferðina að Sakho mætti of seint í flugið til Bandaríkjanna og þá sagði Klopp frá því að miðvörðurinn mætti ekki á æfingu, mætti ekki í meðhöndlun og var of seinn í kvöldmat.

Í myndbandinu á heimasíðu Liverpool eru Klopp og leikmennirnir að heimsækja Alcatraz-fangelsið í San Francisco og þar spyr Sakho knattspyrnustjórann sin hversu lengi hann telur að hann geti búið þar.

„Ég þarf ekki að hugsa um það heldur þú. Aðeins annar okkar mætti of seint í flugið frá Liverpool og það varst þú,“ svaraði Klopp og grínaðist með að þeir ætluðu að skilja Sakho eftir í Alcatraz.

Sakho æfir nú á Melwood og bíður eftir því að félagar sínir komi heim frá Bandaríkjunum en þeir eiga næst leik á laugardaginn á móti AC Milan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×