Erlent

George Michael látinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
George Michael.
George Michael. vísir/getty
Breski söngvarinn George Michael lést í dag, jóladag, 53 ára aldri. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá talsmanni hans til fjölmiðla nú fyrr í kvöld en BBC greinir frá

Söngvarinn sló fyrst í gegn á níunda áratugnum með hljómsveitinni Wham. Eftir að sú sveit hætti hóf Michael farsælan sólóferil en fyrsta sólóplata hans, Faith, kom út árið 1987 og seldist hún í yfir 20 milljónum eintaka. 

Samkvæmt yfirlýsingu frá talsmanni Michael lést hann á heimili sínu. Ekki er talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað en Thames Valley-lögreglan segir að sjúkrabílar hafi verið kallaðir að heimili söngvarans í Oxford-skíri rétt rúmlega hálftvö í dag. 

George Michael var listamannsnafn Georgios Kyriacos Panayiotou sem fæddist í Norður-London, 25. júní 1963. Hann seldi meira en 100 milljónir eintaka af plötum á tónlistarferli sem spannaði nærri fjörutíu ár.

Fyrr í þessum mánuði var tilkynnt að upptökustjórinn og lagahöfundurinn Naughty Boy væri að vinna að nýrri plötu með Michael. 

Hér að neðan má hlusta á eitt frægasta lag hljómsveitarinnar Wham, Last Christmas.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×