Ronaldo fékk Gullboltann fyrst árið 2008, svo 2013 og 2014 og loks í ár. Hann hefur því fengið þrjá Gullbolta á síðustu fjórum árum.
Ronaldo, sem vann Meistaradeild Evrópu með Real Madrid og varð Evrópumeistari með Portúgal á árinu, fékk yfirburðakosningu í kjörinu, eða rúmlega helmingi fleiri atkvæði en Lionel Messi sem endaði í 2. sæti. Messi hefur fimm sinnum hreppt Gullboltann, einu sinni oftar en Ronaldo.
Ronaldo fékk alls 745 stig í kjörinu en Messi 316 stig. Antoine Griezmann, markahæsti leikmaður EM í Frakklandi, varð þriðji með 198 stig.
Alls tóku 173 blaðamenn, einn frá hverju landi, þátt í kjörinu. Hver þeirra valdi þrjá leikmenn. Sá sem þeir settu í 1. sæti fékk fimm stig, leikmaðurinn í 2. sæti fékk þrjú stig og sá þriðji eitt stig.
Spænsku stórliðin Barcelona og Real Madrid áttu bæði þrjá fulltrúa á topp 10. Englandsmeistarar Leicester City komu næstir með tvo fulltrúa.
Riyad Mahrez fékk 20 stig í 7. sæti og Jamie Vardy 11 stig í 8. sæti. Þeir fengu fleiri atkvæði en leikmenn á borð við Robert Lewandowski, Zlatan Ibrahimovic, Paul Pogba og Sergio Agüero.
Þessir leikmenn fengu atkvæði í kjöri á besta fótboltamanni heims 2016:
1. Cristiano Ronaldo - 745 stig
2. Lionel Messi - 316 stig
3. Antoine Griezmann - 198 stig
4. Luis Suárez - 91 stig
5. Neymar - 68 stig
6. Gareth Bale - 60 stig
7. Riyad Mahrez - 20 stig
8. Jamie Vardy - 11 stig
9.-10. Gianluigi Buffon og Pepe - 8 stig
11. Pierre-Emerick Aubameyang - 7 stig
12. Rui Patrício - 6 stig
13. Zlatan Ibrahimovic - 5 stig
14.-15. Paul Pogba og Arturo Vidal - 4 stig
16. Robert Lewandowski - 3 stig
17.-19. Toni Kroos, Luka Modric og Dimitri Payet - 1 stig
