Erlent

Saka uppreisnarmenn um að sviðsetja myndbönd af ódæðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnarliðar ganga um götur hverfis sem var nýverið tekið af uppreisnarmönnum.
Stjórnarliðar ganga um götur hverfis sem var nýverið tekið af uppreisnarmönnum. Vísir/AFP
Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir myndbönd sem sýna almenna borgara verða fyrir loftárásum og annars konar ódæðum í Aleppo í Sýrlandi, vera framleidd af uppreisnarmönnum. Igor Konashenkov, talsmaður ráðuneytisins, segir að fjölmiðlar eigi ekki að falla fyrir áróðri hryðjuverkamanna.

Þá segir Konashenkov að engir aktívístar hafi fundist í austurhluta Aleppo. Góðgerðarsamtök og björgunaraðilar hafi heldur ekki fundist á svæðinu, eingöngu hryðjuverkamenn sem hafi farið illa með íbúa.

Rússar segja hryðjuverkamenn hafa haldið um hundrað þúsund borgurum í gíslingu og notað þá sem mennska skildi. Þá hafi skólar og sjúkrahús verið notuð til vopnaframleiðslu og birgðageymslu.

Þá segir ráðuneytið að sóknin í Aleppo hafi verið „mannúðleg“ gagnvart almennum borgurum.

Sameinuðu þjóðirnar áætluðu í október að í Aleppo hafi um 900 vígamenn hryðjuverkasamtaka haldið til, af um átta þúsund uppreisnarmönnum.

Lík á víð og dreif

Sameinuðu þjóðirnar segja að minnst 82 almennir borgarar hafi verið teknir af lífi í borginni og fregnir hafa borist af fjölda fólks sem sé fast í rústum húsa. Þar að auki eru lík sögð liggja á götum borgarinnar. Varað er við því að hinir látnu gætu verið mun fleiri.

Undanfarna daga hafa loftárásirnar á Aleppo verið einhverjar þær mestu á árinu.

Af þeim 82 sem hafi verið myrt eru 13 börn og 11 konur. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur bendlað íraska sjálfboðaliða sem berjast í Sýrlandi til stuðnings Bashar al-Assad við hluta morðanna.

„Fregnirnar sem okkur hafa borist benda til þess að fólk hafi verið skotið til bana á götum borgarinnar og á heimilum sínum,“ sagði talsmaður Mannréttindastofnunarinnar.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði blaðamönnum í dag að Rússar væru orðnir þreyttir á „vælinu“ í núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna um að stöðva átökin í borginni, þrátt fyrir að Bandaríkin hafi ekkert gert til að reyna að fá „hófsama uppreisnarmenn“ til þess að slíta sig frá vígamönnum hryðjuverkasamtaka.

Talsmaður Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Blaðamaður keyrir inn í Aleppo.
Rætt við íbúa borgarinnar
Íbúar í vesturhluta Aleppo fagna sigri stjórnarhersins.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×