Erlent

Ítalir kljást um að verða næsti forseti Evrópuþingsins

Atli Ísleifsson skrifar
Antonio Tajani og Gianni Pittella.
Antonio Tajani og Gianni Pittella. Vísir/AFP
Flest bendir til að næsti forseti Evrópuþingsins verði Ítali eftir að þinghópur kristilegra demókrata (EPP) kom sér saman um frambjóðanda.

EPP hefur tilnefnt Antonio Tajani úr flokknum Forza Italia til að taka við forsetaembættinu af Þjóðverjanum Martin Schultz sem lætur af embætti um áramót. Jafnaðarmaðurinn Schultz hyggst snúa aftur í þýsku landsmálin en þingkosningar fara þar fram á næsta ári.

Kosið verður um nýjan forseta Evrópuþingsins í janúar.

Forza Italia er flokkur sem fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, átti þátt í að stofna og var Tajani um tíma talsmaður Berlusconi í fyrstu forsætisráðherratíð hans á tíunda áratugnum.

Tajani átti sæti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir hönd Ítalíu á árinum 2010 til 2014 þar sem hann fór málefni iðnaðarmála. Í frétt Aftonbladet kemur fram að þetta hafi leitt til spurninga hvort hann hafi vitað um útblásturssvindl Volkswagen, löngu áður en upp komst um málið á síðasta ári.

Jafnaðarmenn á Evrópuþinginu höfðu áður sameinast um samlanda Tajani, Gianni Pittella, sem hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá 1999.

Frjálslyndir demókratar hafa tilnefnt Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, og Íhaldsmenn á Evrópuþinginu (ECR), sem eru efasemdarmenn þegar kemur að Evrópusamrunanum, hina belgísku Helgu Stevens.

Þingmenn þinghóps EPP eru 214 talsins, þingmenn þinghóps Jafnaðarmanna 189, Frjálslyndra demókrata 69, Íhaldsmanna 74 og annarra hópa samtals 205.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×