Erlent

Clinton sakar Pútín um að hafa stýrt tölvuárásum til að hefna sín á henni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hillary Clinton.
Hillary Clinton. vísir/getty
Hillary Clinton, sem var forsetaframbjóðandi Demókrata í kosningunum í Bandaríkjunum í ár, sakar Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, um að hafa persónulega stýrt tölvuárásum sem beindust gegn landsnefnd Demókrata og John Podesta, kosningastjóra Clinton.

Hakkarar komust yfir mikið magn af tölvupóstum sem Wikileaks afhjúpuðu og var ítarlega fjallað efni þeirra og innihald í aðdraganda kosninganna. Bæði Bandaríska leyniþjónustan, CIA, og Bandaríska alríkislögreglan, FBI, telja að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar og tryggja Donald Trump sigur.

Clinton hitti stuðningsmenn sína í gær og á þeim fundi sagði hún að árásirnar ættu rætur að rekja til þess að Pútín vildi hefna sín á henni fyrir orð sem hún lét falla árið 2011 um að úrslitum rússnesku forsetakosninganna hefði verið hagrætt.

„Pútín kenndi mér opinberlega um reiði rússnesku þjóðarinnar sem braust út í kjölfar þessara kosninga og það eru bein tengsl á milli þess sem hann sagði þá og þess sem hann gerði í þessum kosningum nú,“ sagði Clinton.

Podesta og aðrir sem komu að kosningabaráttu Clinton hafa gagnrýnt fjölmiðla fyrir að gera lítið úr þætti Rússa í bandarísku forsetakosningunum.

„Fjölmiðlar eru rétt svo núna að koma fram með staðreyndirnar sem við reyndum að benda þeim á síðustu mánuði kosningabaráttunnar,“ sagði Clinton á fundinum í gær og bætti við:

„Þetta er ekki bara árás á mig og mína kosningabaráttu, þó að það hafi vissulega verið olía á eldinn. Þetta er árás á landið okkar. Þetta snýst um lýðræðið okkar og öryggi okkar sem þjóðar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×