Erlent

Hundruð Venesúelamanna ruddu sér leið yfir landamæri Kólumbíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólkið sem ruddist yfir landamærin fór þangað til að verða sér út um mat og lyf, sem eru af skornum skammti.
Fólkið sem ruddist yfir landamærin fór þangað til að verða sér út um mat og lyf, sem eru af skornum skammti. Vísir/AFP
Hundruð Venesúelamanna ruddu sér í dag leið yfir landamæri Kólumbíu til að nálgast matvæli og annarskonar nauðsynjar. Óeirðir og gripdeildir eiga sér stað víða í landinu sem gengið hefur í gegnum gífurlega efnahagslega erfiðleika. 

Stjórnarandstaða landsins hefur kallað eftir afsögn Nicolas Maduro, forseta, vegna vanhæfis og þess ástands sem ríkir nú í Venesúela. Maduro segir hins vegar að andstæðingar sínir séu að ýta undir ofbeldi. Þá segir hann þessa sömu andstæðinga hafa skemmt efnahag landsins til að grafa undan honum.

Sjá einnig: Sjálfskaparvíti Venesúela - Sósíalíska draumaríkið sem kollvarpaðist í martröð

Fyrr í vikunni var 100 bólivara seðillinn tekinn úr umferð án viðvörunar og leiddi það til mikilla biðraða við banka og skorts á reiðufé. Maduro segir það hafa verið gert til að sporna gegn glæpasamtökum og smyglurum á landamærum Venesúela og Kólumbíu sem séu að flytja peninga yfir landamærin.

100 bólivarar eru um tveggja senta virði á svörtum markaði. Það samsvarar rúmum tveimur krónum.

Nicolas Maduro, forseti landsins, hefur lokað landamærum Kólumbíu og Brasilíu. Landamærum Venesúela og beggja ríkjanna hefur verið lokað. Fólkið sem ruddist yfir landamærin fór þangað til að verða sér út um mat og lyf, samkvæmt Reuters.

Þá hafa nýir seðlar í stað hinna ekki verið gefnir út. Maduro sagði að nýjum seðlum yrði komið í dreifingu innan skamms þrátt fyrir „alþjóðleg skemmdarverk“ sem miðuðu að því að koma í veg fyrir dreifingu seðlanna. Hann útskýrði ekki hvað hann átti við.

Í sunnanverðu landinu hafa um 135 manns verið handtekin eftir að óeirðir fóru fram. Brotist var inn í fjölda verslana og vöruhúsa í héraðinu Ciudad Bolivar og hefur útgöngubann verið sett á. Þrír létu lífið og þar á meðal fjórtán ára drengur í óeirðum í bænum El Callao þar sem margar búðir voru rændar. 


Tengdar fréttir

Venesúelabúar gefa börn vegna ástandsins

Gríðarleg ringulreið ríkir nú í Venesúela vegna seðlaskorts en ákveðið hefur verið að taka algengasta seðil landsins úr umferð. Verðbólga hefur aukist um 500 prósent á undanförnum misserum og eru fjölskyldur farnar að gefa börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×