Innlent

Lækna-Tómas gagnrýnir stjórnvöld: ,,Er ekki góðæri?''

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sjúklingar þurfa að liggja á göngum og kaffistofum spítalans.
Sjúklingar þurfa að liggja á göngum og kaffistofum spítalans. Myndir/Tómas Guðbjartsson
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir á Landspítalanum gagnrýnir yfirvöld harðlega og spyr hvort stjórnmálamenn landsins hafi gleymt kosningaloforðum um auknar fjárveitingar til spítalans í Facebook færslu þar sem hann birtir myndir sem sýna hve lítið pláss er fyrir sjúklinga á spítalanum.

Myndirnar sem Tómas tók sjálfur eru teknar í gær og nú í morgun. Sýna þær ástand sem hefur að sögn Tómasar verið viðvarandi lengi á mörgum deildum innan spítalans. Hann spyr hvað spítalinn eigi til bragðs að taka þegar inflúensan og norovírus muni herja á landsmenn eftir áramót.

Tómas segir að gangainnlagnir séu meinsemd í íslenska heilbrigðiskerfinu sem ætti ekki  að þekkjast og bendir á að yfirvöld í Svíþjóð beiti spítala dagsektum séu sjúklingar látnir liggja á göngum. Hann segir að fólk sem borgað hafi sitt til samfélagsins eigi skilið betri þjónustu og að lega á kaffistofum og göngum sé fólki ekki bjóðandi.

Tómas spyr hvort ekki sé uppsveifla og góðæri vegna þess að það sjáist ekki á nýlegum fjárframlögum til Landspítalans. Hann gagnrýnir stjórnmálamenn fyrir seinagang og segir að lausnin á þessu vandamáli felist í nýjum spítala við Hringbraut. Aðrar lausnir taki of langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×