Innlent

Færri virðast leita til hjálparstofnana fyrir jólin

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hjálparstofnanir um allt land veita þeim sem á þurfa að halda aðstoð fyrir jólin.
Hjálparstofnanir um allt land veita þeim sem á þurfa að halda aðstoð fyrir jólin. Vísir/Getty Images
Færri virðast leita til hjálparstofnana eftir aðstoð fyrir þessi jól en áður. Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir að þeir sem þangað leiti búi við þröngan kost.

„Maður heyrir bara hljóðið og þeir sem að eftir sitja. Það er mjög þungt vegna þess að húsnæðiskostnaðurinn tekur bróðurpartinn bara af þinni framfærslu. Þannig að það er alltaf að verða minna og minna eftir til að geta haft í mat. Ég tala nú ekki um þegar jólin koma með kröfur um jólagjafir og allt þetta. Þá er bara orðið minna hjá þeim hópi sem situr eftir,“ segir Vilborg. 

Hjálparstofnanir um allt land bjóða nú sem fyrr efnalitlu fólki aðstoð til að geta haldið jólin hátíðleg. Margar þeirra standa sameiginlega að úthlutun styrkja, gjafa og fleiri hluta. Vilborg segir það sjást að margir sem áður hafa verið atvinnulausir og óskað eftir  aðstoð fyrir jólin séu nú komnir með vinnu. 

„Það eru margir sem hafa verið að koma undanfarin á og eru ekki að koma í ár. Þeir hafa verið að fá vinnu og annað slíkt. Maður sér að það hefur fækkað á sumum svæðum þar sem það hefur verið mikið atvinnuleysi. Þar er fækkun vegna þess að fólk er að komast í vinnu,“ segir Vilborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×