Innlent

Ljósin tendruð á Reykjavíkurtrénu í Þórshöfn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Hundruð eða þúsundir íbúa Þórshafnar í Færeyjum voru viðstaddir þegar ljósin á Reykjavíkurtrénu voru tendruð," segir Dagur.
„Hundruð eða þúsundir íbúa Þórshafnar í Færeyjum voru viðstaddir þegar ljósin á Reykjavíkurtrénu voru tendruð," segir Dagur. vísir/dagur
Fjölmargir voru viðstaddir þegar ljósin á Reykjavíkurtrénu í Þórshöfn í Færeyjum voru tendruð nú síðdegis. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti íbúum tréð, en þetta er í fjórða sinn sem Færeyingar fá íslenskt tré að gjöf frá Reykjavíkurborg.

Heðin Mortensen, borgarstjóri Þórshafnar, veitti trénu viðtöku og sungin voru jólalög.

Dagur segir að hundruð eða þúsundir hafi verið viðstaddir athöfnina í dag. „Tréð er gullfallegt og Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Heiðmörkinni og skógrækt í landinu til mikils sóma. Eimskip flutti það endurgjaldslaust með myndarbrag. Það var hátíðlegt að fá að vera viðstaddur hér fyrir hönd borgarbúa og treysta á hin góðu vinabönd sem tengja höfuðstaðina,“ segir Dagur á Facebook-síðu sinni.

Borgin gaf einnig tré til Nuuk í Grænlandi, en Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, afhenti tréð við hátíðlega athöfn í gær. Asii Chemnitz Narup, borgarstjóri Nuuk, tók við trénu ásamt því sem sungnir voru jólasöngvar á íslensku og grænlensku.

Á morgun verður síðan kveikt á jólaljósunum á Oslóartrénu á Austurvelli við hátíðlega athöfn venju samkvæmt. Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, veitir trénu móttöku en Erik Lunde borgarfulltrúi frá Noregi verður viðstaddur athöfnina og segir nokkur orð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×