Katrín Ómarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir eru komnar heim eftir nokkurra ára dvöl í atvinnumennsku og búnar að semja við KR, sitt uppeldisfélag.
Katrín, sem er 29 ára, lék síðast með Doncaster Rovers Bellas á Englandi en samningur hennar við félagið var ekki endurnýjaður. Katrín hefur leikið erlendis frá árinu 2010; í Svíþjóð, Bandaríkjunum og á Englandi. Hún varð Englandsmeistari með Liverpool 2013 og 2014.
Katrín lék 70 leiki með KR í efstu deild og skoraði 27 mörk áður en hún fór í atvinnumennsku. Þá hefur hún leikið 69 A-landsleiki og skorað tíu mörk.
Þórunn, sem er 31 árs, kemur til KR frá norska liðinu Avaldsnes sem hún hefur leikið með undanfarin þrjú ár. Þar áður lék hún í Brasilíu, m.a. með Santos.
Þórunn lék 94 deildarleiki með KR á árunum 2001-08. Hún hefur leikið 15 A-landsleiki.
Katrín og Þórunn munu báðar skrifa undir tveggja ára samning við KR sem endaði í 7. sæti Pepsi-deildar kvenna á síðasta tímabili. Liðið bjargaði sér frá falli með góðum endaspretti en ljóst er að fallbarátta á ekki að vera á dagskránni í Vesturbænum á næsta tímabili.
Tveir atvinnumenn snúa aftur heim í KR

Tengdar fréttir

Katrín yfirgefur Bellurnar
Íslenska landsliðskonan Katrín Ómarsdóttir endurnýjar ekki samninginn við enska liðið.