Erlent

Franskar konur lögðu niður störf að íslenskri fyrirmynd

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá mótmælunum í París í dag.
Frá mótmælunum í París í dag. Vísir/AFP
Franskar konur voru í dag hvattar til að leggja niður störf klukkan 16:34 til að mótmæla kynbundnum launamun. Launamunur kynjanna í Frakklandi var 15,1%, sem þýðir að konur þurfi að vinna 38,2 dögum meira en karlar fyrir sömu launum.

Kvenréttindahópurinn Les Glorieuses stóð fyrir kvennafrídeginum franska. „í hreinskilni sagt þá vissi ég að launamunurinn væri töluverður, en ég hélt að hann væri kannski 10 vinnudagar, ekki einn og hálfur mánuður,“ sagði Rebbecca Amsellem, stofnandi hópsins, í samtali við BBC.

Amsellem segir að kvennafrídagur íslenskra kvenna hafi verið fyrirmyndin. Um tíu þúsund konur staðfestu þátttöku sína á Facebook og varð myllumerkið #7novembre16h34 vinsælt á Twitter í Frakklandi.

Frakkland er þó ekki verst stadda Evrópulandið þegar kemur að launamun kynjanna. Í Þýskalandi var munurinn 22,3% árið 2014 og í Bretlandi var hann 20,9% sama ár.

„Það gleður mig að femínísk málefni séu enn ofarlega í hugum fólks,” sagði Amsellem. „En það er fáránlegt að árið sé 2016 og við þurfum enn að berjast fyrir þessum hlutum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×