Innlent

Lögreglumenn sækja í önnur störf vegna álags

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lögreglumönnum hefur fækkað mjög á landinu öllu frá árinu 2007. Á sama tímabili hefur íbúum landsins fjölgað og sprenging orðið í fjölda ferðamanna sem heimsækja landið. Rannsóknarlögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu segir að álagið hafi aukist mjög og lögreglumenn finni fyrir því.

„Við horfum á brottfall úr stéttinni því álagið bara eykst og eykst,“ segir Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður. Í hans deild eiga að starfa átta manns en að undanförnu hafa þeir verið fjórir.

Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður.vísir/gva
Í svari innanríkisráðherra við fyrir­spurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, kemur fram að starfandi lögreglumenn og afleysingamenn nú eru 642. Árið 2007 voru þeir tæplega hundrað fleiri. Fæstir voru starfandi lögreglumenn árið 2014 eða 622. Á tímabilinu hefur lögreglumönnum fækkað í öllum umdæmum nema á Vestur- og Suðurlandi. Þar hefur þeim fjölgað um þrjá.

Á sama tímabili hefur íbúum landsins fjölgað um 25 þúsund og fjöldi ferðamanna sem heimsækja landið hefur þrefaldast. Árið 2007 voru 2,3 lögreglumenn á hverja þúsund íbúa en talan er nú 1,9.

Sjá einnig:Lögreglustarfið mannskemmandi: Öll mál sem varða börn rista djúpt

„Þetta hljómar eflaust eins og úlfur, úlfur en staðreyndin er sú að við erum fyrir löngu komin fram hjá þolmörkum,“ segir Jökull. Hann segir að allt í kringum sig sjái hann áhrif þess hve fáir standa eftir. „Álagsveikindi hafa aukist og aðrir hreinlega brenna út. Fólk afkastar ekki eins miklu í þessari stöðu.“

Hann tekur dæmi um að tveir ungir og frambærilegir lögreglumenn hafi hætt á dögunum til að hefja störf á bílaleigu. „Að undanförnu hefur borið á því að yngra fólkið fer, því lífsgæði snúast ekki um meiri yfirvinnu. Lífsgæði snúast um það að verja tíma með sínum nánustu og sinna áhugamálum, helst óþreyttur,“ segir Jökull.

„Veikindi hafa verið að aukast, bæði skammtíma- og langtímaveikindi, en við eigum ekki tölur um það,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna. „Það er einnig staðreynd að lögreglumenn hafa verið að segja upp í auknum mæli sökum ástandsins.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×