Fótbolti

Sara Björk kom sér út úr þægindarammanum: „Fæ að heyra það ef ég stend mig illa“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í fótbolta mæta Slóveníu á föstudaginn í næst síðasta leik liðsins í undankeppni EM 2017. Íslenska liðið þarf aðeins eitt stig úr síðustu tveimur heimaleikjunum gegn Slóvenum og Skotum til að tryggja sér sæti á EM þriðja skiptið í röð.

„Við ætlum að ná í þetta stig og gulltryggja þetta,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður Íslands, við Vísi á æfingu liðsins í kuldanum á Laugardalsvelli í morgun.

Ísland vann Slóveníu, 6-0, ytra en bæði þjálfarinn og stelpurnar segja slóvenska liðið mun betra en tölurnar gefa til kynna. Slóvenar eru í þriðja sæti riðilsins með níu stig eftir sex leiki en Ísland er í efsta sæti með 18 stig, búið að skora 29 mörk og ekki fengið á sig eitt einasta.

„Við vanmetum ekki neitt lið í riðlinum. Við erum alveg eins undirbúin á móti Skotum og Slóveníu. Við reynum að fá eitthvað ákveðið út úr leiknum og ef það gerist þá getum við unnið Slóvena 6-0 og Skota 4-0,“ segir Sara Björk.

„Það er líka hægt að spila illa og það er kannski ástæðan fyrir því að segjum ekki að við ætlum að vinna 6-0. Maður veit alveg hvernig maður spilar en við reynum að vera einbeittar og höldum áfram að spila eins og við höfum verið að spila. Vonandi fáum við einhverja markaveislu.“

Sara Björk heldur aðeins á lofti á æfingu Íslands í dag.vísir/eyþór
Kynslóðaskipti

Íslenska kvennalandsliðið hefur tekið miklum framförum undanfarin misseri. Sara Björk er búin að vera hluti af liðinu og lykilmaður í því í níu ár þrátt fyrir að verða ekki nema 26 ára gömul síðar í mánuðinum.

„Það er komin svona mikil reynsla í hópinn finnst mér. Við erum búin að spila mikið á sömu leikmönnunum en svo hafa verið kynslóðaskipti,“ segir Sara aðspurð um muninn á liðinu núna og síðast þegar það fór á EM.

„Mér finnst leikmenn vera búnir að bæta tæknilega getu almennt og komnir í betra form. Leikmennirnir eru að bæta sig og því er landsliðið að bæta sig.“

„Það er búið að ganga vel. Við erum alltaf að verða betri og betri og þá öðlast liðið sjálfstraust. Það kannski skín aðeins í leiknum og er eitthvað sem þið sjáið. Vonandi heldur það áfram,“ segir Sara Björk.

Sara Björk í leik með Rosengård gegn Wolfsburg.vísir/getty
Meiri agi

Þessi öflugi miðjumaður yfirgaf Svíþjóðarmeistara Rosengård í sumar og gekk í raðir þýska stórliðsins Wolfsburg sem hafnaði í öðru sæti í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. Sara segir mikinn mun á Þýskalandi og Svíþjóð er varðar fótboltann.

„Þetta er búið að vera mjög krefjandi en skemmtilegt,“ segir Sara en hver er svona helsti munurinn?

„Aginn,“ svarar hún um hæl. „Maður þarf gjörsamlega að vera á tánum og vera einbeitt allan sólarhringinn. Það er meiri hraði þarna og meiri gæði. Við erum með 26 manna hóp og landsliðsmenn í öllum stöðum. Það eru til dæmis fimm leikmenn að berjast um mína stöðu.“

„Maður þarf alltaf að vera 100 prósent klár og góður á æfingum. Svo fær maður gjörsamlega að heyra það ef maður gerir eitthvað illa eða tekur lélega ákvörðun. Þetta er eitthvað sem maður þarf að venjast.“

Sara Björk vill ekki vera á bekknum.vísir/hanna
Vill byrja alla leiki

Sara Björk þurfti aldrei að hafa áhyggjur af byrjunarliðssæti sínu hjá Rosengård en var ein ástæðan fyrir því að hún vildi fara til stærra liðs að hún hafði það aðeins of huggulegt?

„Það er klárlega ástæðan. Ég var inn í ákveðnum þægindaramma og vantaði smá samkeppni. Æfingar og allt það var gott hjá Rosengård samt. En mig langaði líka að prófa eitthvað nýtt og aðeins meira krefjandi,“ segir Sara Björk sem var á bekknum í fyrsta leik liðsins og fannst það ekkert sniðugt.

„Það var ömurlegt. Ég er svo ótrúlega mikil keppnismanneskja. Þjálfarinn talaði við mig og sagði að hann vildi byrja á liði sem væri búið að spila aðeins meira saman. En svo kom ég snarvitlaus inn á og snarvitlaus á næstu æfingar og byrjaði svo næsta leik og stóð mig vel.“

„Ég hef ekki mikinn húmor fyrir því. Samkeppnin er auðvitað mikil og þetta fær mann til að vera enn þá betri og halda áfram að bæta sig. Þetta er rosalega krefjandi verkefni en ég tek því eins og öllu öðru og reyni að gera mitt besta,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Freyr: Fullur völlur myndi senda skýr skilaboð

Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í fótbolta eru hænufeti frá EM 2017. Hópurinn fyrir síðustu leikina var tilkynntur í gær. Landsliðsþjálfarinn vill ekkert­ minna en áhorfendamet þegar EM-sætinu verður fagnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×