Fótbolti

Freyr um Hörpu: Ég er að missa leikmann og er svekktur með það | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, getur ekki leynt vonbrigðum sínum að missa sóknarmanninn Hörpu Þorsteinsdóttur úr landsliðshópi sínum en þessi mikli markaskorari er barnshafandi.

Hún var ekki valin í íslenska landsliðið sem mætir Slóveníu og Skotlandi í lokaleikjum sínum í undankeppni EM 2017 en Íslandi vantar eitt stig til að tryggja sér farseðilinn á EM í Hollandi næsta sumar.

Harpa hefur verið að spila með liði sínu, Stjörnunni, síðustu daga og vikur. Það kom þó ekki til greina að velja hana í landsliðið.

„Ég er mögulega búinn að finna svarið við því hver sé munurinn á því að þjálfa karla og konur. Þetta er stóri munurinn,“ sagði Freyr í samtali við íþróttadeild í dag en viðtal við hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

„Leikmenn geta óvænt komið með þau skilaboð að þeir eru barnshafandi. Hún verður nú frá í allt að eitt ár sem er vissulega sjokk en okkar samtal var mjög heiðarlegt. Ég sagði henni hversu mikið ég vildi hafa hana í mínu liði en fyrst og fremst hrósaði ég henni fyrir það sem hún hefur gert. Hún hefur tekið mestum framförum af öllum þeim leikmönnum sem ég hef haft síðan ég tók við landsliðinu,“ sagði Freyr enn fremur.

Hann óskar vitanlega Hörpu innilega til hamingju með góðu tíðindin. „Það er ekkert sem jafnast á við það að eignast barn og það höfum við heyrt milljón sinnum. En ég held að Harpa sé svekkt að missa af því tækifæri að fá að spila á EM og ég er að missa leikmann og er svekktur með það.“

„En ef að ég hangi í því þá erum við ekki að halda áfram í þeirri vegferð sem við höfum verið í. Nú er þessu lokið og nú verðum við að stíga upp.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×