Erlent

Leiðtogar ESB staðráðnir í að herða landamæraeftirlit

Heimir Már Pétursson skrifar
Bretar fá enga undanþágu frá frjálsu flæði verkafólks vilji þeir fá frjálsan aðgang að innri markaði ESB.
Bretar fá enga undanþágu frá frjálsu flæði verkafólks vilji þeir fá frjálsan aðgang að innri markaði ESB. Vísir/EPA
Leiðtogar 27 ríkja Evrópusambandsins samþykktu leiðarvísi fyrir sambandið í nokkrum mikilvægum málum á óformlegum leiðtogafundi sínum í Bratislava í Slóvakíu í gær. Samkomulagið nær meðal annars til stefnu bandalagsins varðandi flóttamenn og gæslu á landamærum ríkja Evrópusambandsins. Sett verður á laggirnar Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópusambandsins fyrir lok þessa árs.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, segir að leiðtogarnir séu staðráðnir í að koma í veg fyrir stjórnlaust flæði flóttamanna til bandalagsins eins og gerst hafi á síðasta ári. Bandalagsríkin leggi áherslu á fullkomna stjórn ríkjanna á landamærum bandalagsins og horfið verði alfarið til regla Schengen-samkomulagsins. Þá sé Evrópusambandið staðráðið í að halda áfram nánu samstarfi við Tyrki og ríkin á Balkanskaga, það er Króatíu, Serbíu, Rúmeníu, Búlgaríu og Grikkland.

Auk þess ætli Evrópusambandið að efla samstarf við Afríkuríki í flóttamannamálum. Útganga Breta úr Evrópusambandinu var einnig rædd á leiðtogafundinum. Tusk segir að aðildarríkin 27 sem eftir verði muni einungis horfa til hagsmuna þeirra ríkja en ekki hagsmuna útgönguríkisins þegar samið verði við Breta.

Jean-Claude Juncker forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að einstök atriði í vegvísi leiðtoganna verði ljós á næstu mánuðum. Sambandið sé reiðubúið til viðræðna við Breta um útgöngu þeirra úr sambandinu nú þegar. Theresa May forsætisráðherra Bretlands segir hins vegar að bresk stjórnvöld verði tilbúin til að hefja viðræður í janúar eða febrúar.

Junker segir sambandið ekki fara í neina leiki með forsætisráðherrum sem annað hvort vilji vera eða fara úr Evrópusambandinu. Hann geti ekki séð að neinar undantekningar verði gerðar um frjálst flæði íbúa Evrópusambandins við ríki sem ætlist til að fá frjálsan aðgang að mörkuðum sambandsins. En talsmenn útgöngu Breta hafa lagt höfuðáherslu á fullkomna stjórn landamæra Bretlands en einnig að samið verði um frjálsan aðgang Breta að innri markaði sambandsins.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×