Erlent

Vinsældir Merkel dvína hratt eftir árásir

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Angela Merkel.
Angela Merkel. Vísir/Getty
Eftir tvær hryðjuverkaárásir í Þýskalandi í síðasta mánuði hafa vinsældir Angelu Merkel minnkað hratt.

Vinsældir hennar heimafyrir höfðu minnkað um 12 prósentustig niður í 47 prósent sem eru næstminnstu vinsældir sem hún hefur mælst með á yfirstandandi kjörtímabili sem hófst 2013. Tveir þriðju hlutar Þjóðverja segjast jafnframt vera óánægðir með stefnu hennar í málefnum innflytjenda.

Alls sögðust 59 prósent Þjóðverja vera ánægð með störf kanslarans fyrir mánuði. Angela Merkel hefur mælst með ótrúlega mikið traust á sama tíma og hún hefur glímt við krefjandi verkefni sem kanslari og einnig sem leiðtogi öflugasta og fjölmennasta ríkis Evrópusambandsins.

Í apríl á síðasta ári naut hún 75 prósenta stuðnings sem er nánast án fordæma á síðari tímum. Þá mældist hún með meira en 60 prósenta stuðning þegar evrukrísan stóð sem hæst árið 2011 og skuldavandi og ósjálfbær skuldastaða ríkja eins og Portúgal, Ítalíu, Grikklands og Spánar var í brennidepli. 


Tengdar fréttir

Félagar Merkel snúast gegn henni

Gróf ofbeldisverk nokkurra innflytjenda í Þýskalandi undanfarnar vikur hafa enn á ný ýtt undir umræðu um flóttafólk. Áhrifamenn í systurflokkunum CSU og CDU kenna Merkel um ástandið. Aðrir vara þó við því að kynda upp í æsingavélinni eina ferðina enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×