Erlent

Forseti Tyrklands segir árásarmanninn vera 12-14 ára gamlan

Birta Svavarsdóttir skrifar
Erdogan ávarpar stuðningsmenn sína eftir misheppnaða valdaránstilraun í sumar.
Erdogan ávarpar stuðningsmenn sína eftir misheppnaða valdaránstilraun í sumar. Vísir/Getty
Recep Erdogan, forseti Tyrklands, segir árásarmanninn sem myrti yfir fimmtíu manns og særði í kringum sjötíu í sprengjuárás í brúðkaupsveislu í Gaziantep í Tyrklandi í gærkvöldi vera 12-14 ára gamlan ungling.

Um sjálfsmorðsárás var að ræða, en talið er að hryðjuverkasamtökin ISIS séu á bak við árásina. Þetta kemur fram á heimasíðum CNN og BBC í dag.

„Samkvæmt upprunalegri rannsókn lögregluyfirvalda okkar teljum við líklegt að árásin hafi verið framin af Daesh,“ er haft eftir Erdogan í viðtali við fréttamenn í Istanbúl, en Daesh er annað nafn yfir samtökin. „Daesh eru sem stendur að reyna að koma skipulagi á starfsemi sína í Gaziantep. Aðgerðir til að verjast samtökunum hafa verið og eru enn í fullum gangi," sagði Erdogan.

Mikil sorg ríkir í suðurhluta Tyrklands í dag.Vísir/Getty
Yfirvöld í Tyrklandi segjast hafa fundið leifar af vesti sem notað er til sjálfsmorðsárása. Samkvæmt sjónarvottum var sprengingin hin hræðilegasta, en í samtali við tyrknesku fréttastofuna Anadolu sagði bróðir brúðgumans, „Við gátum ekki séð neitt. Ekkert nema líkamshluta.“

Um kúrdískt brúðkaup var að ræða, en árásin átti sér stað á fjölfarinni götu í kúrdísku hverfi. Brúðhjónin særðust bæði í árásinni en eru ekki talin vera í lífshættu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×