Erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Thorbjörn Fälldin, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Miðflokksins, lést á heimili sínu í Ramvik í norðausturhluta Svíþjóðar í gærkvöldi, níræður að aldri.

Fälldin gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 1976 til 1978 og leiddi þá fyrstu ríkisstjórn borgaralegra flokka í landinu frá 1936, en Jafnaðarmenn höfðu þá stjórnað landinu sleitulaust í fjörutíu ár.

Í frétt SVT segir að Fälldin hafi verið þekktur fyrir mikla andstöðu sína við kjarnorku og í stjórnartíð sinni hafi hann neyðst til að gera miklar málamiðlanir er vörðuðu málaflokkinn. Að lokum kostaði andstaða hans við kjarnorku hann forsætisráðherraembættið árið 1978.

Eftir miklar hræringar í sænskum stjórnmálum myndaði hann svo þriggja flokka stjórn árið 1979 sem hann leiddi til ársins 1982.

Fälldin gegndi formannsembætti í Miðflokknum um fjórtán ára skeið, frá 1971 til 1985.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×