Enski boltinn

Payet verður aldrei seldur á minna en 50 milljónir punda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitri Payet fagnar markinu sínu á móti Íslandi.
Dimitri Payet fagnar markinu sínu á móti Íslandi. Vísir/Getty
Dimitri Payet var góður með West Ham í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og átti síðan frábæra Evrópukeppni með franska landsliðinu.

Það er því ekkert skrýtið að stórlið Evrópu sýni þessum mikla spyrnumanni mikinn áhuga.

West Ham vill hinsvegar halda sínum lykilmanni og ætlar ekki að láta hann fara nema fyrir risaupphæð.

David Gold, stjórnarformaður West Ham, fór ekki leynt með þetta í útvarpsviðtali á BBC Radio 5 live í gærkvöldi.

Hann var þá gestur hjá Kelly Cates í þættinum Monday Night Club og þá barst talið að sjálfsögðu af Dimitri Payet.

„Við verðum að halda okkar bestu leikmönnum og viljum ekkert fá tilboð í þá," sagði David Gold í þættinum. Gold viðurkenndi þó að West Ham myndi skoða tilboð í franska landsliðsmanninn en aðeins ef þau væri upp á 50 milljón punda eða meira. 50 milljónir punda eru átta milljarðar íslenskra króna.

Dimitri Payet var með 9 mörk og 12 stoðsendingar í 30 leikjum á sínu fyrsta tímaibli í ensku úrvalsdeildinni og West Ham vann aðeins 1 af 8 leikjum án hans.

Payet fylgdi þessu eftir með því að skora 3 mörk og gefa 2 stoðsendingar á EM og þar á meðal skoraði hann sigurmarkið á móti Rúmeníu í fyrsta leik og eitt af fimm mörkum liðsins á móti Íslandi í átta liða úrslitunum.

Dimitri Payet er hinsvegar orðinn 29 ára gamall og það ætti vissulega að hafa áhrif á kaupverðið þó að hann ætti nú að eiga mörg góð ár eftir enn.

Dimitri Payet er með samning við West Ham til júní 2021 eða í fimm tímabil í viðbót. Hann verður því leikmaður West Ham svo framarlega sem ekkert lið er tilbúið að borga allan þennan pening fyrir hann.

Dimitri Payet skorar hér á móti Íslandi.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Payet: Besti leikur okkar á EM

Dimitri Payet var magnaður í franska liðinu í kvöld og átti stóran þátt í sigri Frakklands á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×