Erlent

Margir látnir í Orlando

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/epa
Fjöldi fólks er talinn hafa látið lífið í skotárás á skemmtistað samkynhneigðra í Orlando í Flórída í nótt. Minnst 42 eru særðir en árásarmaðurinn var vopnaður árásarriffli og skammbyssu. Maðurinn var felldur í skotbardaga við lögreglu, en einn lögregluþjónn særðist í átökunum.

Lögreglan er enn að ganga úr skugga um að maðurinn hafi ekki komið sprengju fyrir á skemmtistaðnum eða sé í sprengjuvesti og hafa því ekki farið inn á skemmtistaðinn. Þess í stað hefur vélmenni verið sent inn. Á blaðamannafundi sem haldinn var skömmu eftir klukkan ellefu sagði lögreglan að líklegast væru um 20 látnir.

Árásin átti sér stað klukkan sex að íslensku tíma. Fjölmenni var þá inn á staðnum og svo virðist sem að árásarmaðurinn hafi hafið skothríð gegn gestum staðarins af handahófi. Þegar lögregluþjónar komu á vettvang skiptust þeir á skotum við árásarmanninn og flúði hann aftur inn á skemmtistaðinn. Ekki er vitað hvort að hann hafi haldið áfram að skjóta fólk þá.

Þremur tímum eftir að maðurinn hóf skothríðina braut lögreglan sér leið í gegnum vegg á húsinu. Fólki var bjargað þar út um gatið og sérsveitarmenn skutu árásarmanninn til bana.

Lögreglustjóri sem ræddi við blaðamann lýsti ódæðinu sem hryðjuverki en ekki liggur fyrir hver árásarmaðurinn er.


Tengdar fréttir

Söngkona skotin til bana á tónleikum

Bróðir söngkonunnar reyndi að yfirbuga árásarmanninn en áður en tókst að afvopna hann náði hann að skjóta sjálfan sig til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×