Innlent

Borgin krefur ríkið um afsal flugvallarlands í Skerjafirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Borgarlögmaður telur hæstaréttardóm, sem féll í síðustu viku um lokun minnstu flugbrautar Reykjavíkurflugvallar, knýja ríkið jafnframt til að afsala borginni stóru landssvæði í Skerjafirði. Þar er borgin búin að skipuleggja nýtt íbúðahverfi fyrir áttahundruð íbúðir. 

Valsmenn hf. geta nú sett byggingaframkvæmdir á Hlíðarenda á fullt eftir að ríkið var skikkað til efna samning við borgina um að loka flugbrautinni umdeilu. En það eru tveir endar á brautinni; hinn snýr að Skerjafirði, og nú vaknar sú spurning hvort hæstaréttardómurinn hafi rutt brautina fyrir borgina að hún fái einnig Skerjafjarðarlandið undir nýtt íbúðahverfi.

Það var skömmu fyrir síðustu þingkosningar sem þau Dagur B. Eggertsson, þá staðgengill borgarstjóra, og Katrín Júlíusdóttir, þáverandi fjármálaráðherra, undirrituðu samning um að borgin keypti flugvallarland ríkisins í Skerjafirði, alls 112 þúsund fermetra svæði. Á sama tíma kynnti borgin skipulag sem gerði ráð fyrir að þar risu 800 íbúðir, í þéttri byggð fjögurra hæða fjölbýlishúsa. Afsal skyldi gefið út þegar fyrir lægi formleg tilkynning um lokun flugbrautarinnar en samningurinn var gerður á grundvelli heimildargreinar í fjárlögum til ráðherra um að ganga til samninga um landið. 

Eftir ríkisstjórnarskipti hafnaði nýr stjórnarmeirihluti fjárlaganefndar að bæta inn í fjárlagafrumvarp heimild um að ríkið seldi Skerjafjarðarlandið. Formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sagði þá í viðtali í fréttum Stöðvar 2:

„Þetta er náttúrlega bara fyrst og fremst þannig að það var Samfylkingin í ríkisstjórn sem samdi við Samfylkinguna í borgarstjórn um þennan gjörning og við erum bara að vinda ofan af því,” sagði Vigdís fyrir þremur árum.

Dagur B. Eggertsson og Katrín Júlíusdóttir handsala samkomulag um sölu flugvallarlandsins.
Ráðamenn borgarinnar telja hins vegar rökstuðning Hæstaréttar í síðustu viku vísa veginn varðandi Skerjafjarðarlandið. 

„Ég get ekki betur séð en að Hæstiréttur sé mjög afdráttarlaus með það, beinlínis segir að Alþingi hafi heimilað þessa sölu, og að í þeim samningi sem gerður var í framhaldinu hafi falist skuldbinding um það að gera kaupsamning og gefa svo út afsal að því loknu. Þannig að í mínum huga er enginn vafi á því,“ segir Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður. 

Hvernig borgin muni fylgja þessu máli eftir svarar Kristbjörg: 

„Ég reikna með að þegar liggur fyrir að flugbrautinni hafi verið lokað, sem eru þau tímamörk sem miðað er við í samningnum, þá muni Reykjavíkurborg bara ganga í það að efna þann samning.“ 

Ekki þýði fyrir Alþingi að koma núna og hafna sölu Skerjafjarðarlandsins.

„Nei, því það var nú beinlínis kveðið á um það í þessum dómi, sem nú féll, að samninga beri að efna. Og það er búið að gera samning um þetta. Og ríkið hlýtur að sjálfsögðu að efna þann samning,“ segir borgarlögmaður.


Tengdar fréttir

Gera ráð fyrir 800 íbúðum í Skerjafirði

Samningar hafa tekist á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um kaup á landi ríkisins í Skerjafirði. Í samningnum felst að Reykjavíkurborg kaupir land ríkisins, alls um 112 þúsund fermetra svæði. Gera má ráð fyrir að allt að 800 íbúðir geti risið á byggingarlandinu.

Óvissa í flugvallarmálinu: Björn Blöndal furðar sig á ákvörðun Alþingis

Björn Blöndal aðstoðarmaður borgarstjóra og oddviti Bjartrar framtíðar í borginni segir að það komi á óvart að fjárlaganefnd Alþingis hafi ekki afgreitt tillögu sem heimilar ráðherra að selja Reykjavíkurborg land í Vatnsmýrinni. Hann segir of snemmt að spá fyrir um hvort þetta muni hafa áhrif á fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu.

Svona sér Ómar sátt um flugvöll

Flugmaðurinn sem lent hefur oftar á Reykjavíkurflugvelli en flestir aðrir, Ómar Ragnarsson, segir fáránlegt að einn besti möguleikinn til málamiðlunar verði strax útilokaður.

Dagur B.: Fullnaðarsigur fyrir borgina

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar er mjög ánægður með niðurstöðu Hæstaréttar þess efnis að loka þurfi neyðarbrautinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×