Erlent

Morðingi Cox mætti fyrir dóm: „Dauði til föðurlandssvikara, frelsi fyrir Bretland“

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá minningarathöfn í Lundúnum í gær. David Cameron og Jeremy Corbyn tóku þátt í athöfninni.
Frá minningarathöfn í Lundúnum í gær. David Cameron og Jeremy Corbyn tóku þátt í athöfninni. Vísir/EPA
Breskur karlmaður hefur verið ákærður fyrir morðið á þingkonuninni Jo Cox, sem vakið hefur mikinn óhug innan sem utan Bretlands í vikunni.

Hinn 52 ára Thomas Mair er einnig ákærður fyrir alvarlega líkamsárás og fyrir brot á skotvopnalögum. Hann mætti fyrir dóm í Lundúnum í dag en neitaði þar að gefa sitt rétta nafn við þingfestingu ákærunnar. Spurður til nafns, svaraði Mair með orðunum „dauði til föðurlandssvikara, frelsi fyrir Bretland.“ Hann neitaði sömuleiðis að staðfesta fæðingardag sinn eða heimilisfang.

Mair stakk og skaut til bana hina 41 árs Cox í þorpinu Birstall skammt frá Leeds á fimmtudaginn. Hennar var minnst víða um landið í gærkvöldi og bæði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins sem Cox tilheyrði, heimsótti kjördæmi hennar og fluttu þar erindi. Cox er fyrsti breski þingmaðurinn í 26 ár sem er myrtur í embætti.

Óljóst er hvort eða hvernig morðið mun hafa áhrif á niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um áframhaldandi veru þeirra í Evrópusambandinu í næstu viku, en Cox var ötull talsmaður Evrópusambandsaðildar.


Tengdar fréttir

Þingkona skotin á Englandi

Jo Cox, þingkona Verkamannaflokksins, er látin eftir árás manns á götum Birstall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×