Fótbolti

Sérfræðingur Svía gagnrýninn á varnarleik varamanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á myndinni má sjá leikmenn Ungverja upplýsta sem Eiður Smári og Emil gæta í aðdraganda þess að Ungverjar spila sig inn á teig Íslendinga.
Á myndinni má sjá leikmenn Ungverja upplýsta sem Eiður Smári og Emil gæta í aðdraganda þess að Ungverjar spila sig inn á teig Íslendinga. Skjáskot af vef SVT
Svíar fylgjast eðlilega mikið með framgöngu íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi enda þeirra maður, Lars Lagerbäck í brúnni hjá Íslandi. Sérfræðingur sænska sjónvarpsins sagði í greiningu á leiknum í kvöld að mistök tveggja varamanna Íslands hefði orðið til þess að Ísland missti niður unninn leik í jafntefli.

Framherjinn fyrrverandi Daniel Nannskog er sérfræðingur í knattspyrnu hjá SVT og rýndi í leik Íslands og Ungverjaland að honum loknum í kvöld. Sagði hann varamennina Emil Hallfreðsson og Eið Smára bera ábyrgð á markinu.

Þannig hafi Eiður Smári og Emil gleymt sér í sókn Ungverja þar sem þeir spiluðu sig nokkuð þægilega inn á teiginn. Sókninni lauk með fyrirgjöf sem Birkir Már Sævarsson stýrði í netið af stuttu færi undir pressu. Nannskog sagði að byrjunarliðsmenn Íslands hefðu greinilega fylgt uppleggi þjálfaranna í einu og öllu en var harðorður í garð varamannanna tveggja sem hann sagði hafa gleymt sér. Emil sagði í viðtali eftir leik að ef einhver vildi klína markinu á hann þá gæti hann tekið það á sig.

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sagði eftir leik að Ungverjar hefðu átt stigið skilið. Þó hefði verið svekkjandi að fá á sig svona kæruleysismark undir lokin.

Strákarnir okkar voru nálægt því að tryggja sér stigin þrjú í blálokin þegar skot Eiðs Smára fór af varnarmanni og rétt framhjá. Þeir eiga enn fína möguleika á sæti í 16-liða úrslitum. Okkar menn mæta Austurríki í París á miðvikudaginn og sigur sendir Ísland í sextán liða úrslitin.

Íslenska liðið heldur á morgun aftur til Annecy, bækistöðvar liðsins í Frakklandi. Leikmenn liðsins, fyrir utan þá sem byrjuðu leikinn í kvöld, munu æfa á æfingavelli liðsins. Allt liðið æfir svo á mánudag áður en haldið verður til Parísar á þriðjudag. 


 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×