Fótbolti

Kári: Á skalanum 1-10 í svekkelsi er þetta 10

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Árnason átti flottan leik en það dugði því miður ekki til sigurs.
Kári Árnason átti flottan leik en það dugði því miður ekki til sigurs. vísir/vilhelm
„Á skalanum 1-10 er þetta tíu. Þetta var grátlegt," sagði sársvekktur Kári Árnason, miðvörður íslenska liðsins, við Vísi eftir 1-1 jafnteflið gegn Ungverjalandi á EM í fótbolta í kvöld.

Ísland komst yfir með marki Gylfa Þórs Sigurðssonar á 40. mínútu en Ungverjar jöfnuðu með sjálfsmarki Birkis Más Sævarssonar tveimur mínútum fyrir leiks.

„Mér fannst við stýra þessum leik þó við hefðum ekki spilað okkar besta leik. Við vorum traustir í vörninni og þeir skapa engin dauðafæri eins og Portúgal gerði. Þetta er bara grátlegt,“ sagði Kári.

„Við erum enn þá ósigraðir og erum vissulega stoltir af því en við áttum að vinna þennan leik. Kannski áttuðum við okkur ekki alveg á því hversu stórt þetta var í dag. Við gátum tekið fyrsta sætið í þessum riðli, en svona er þetta. Við förum bara upp á hestinn aftur og undirbúum okkur fyrir Austurríki. Þann leik þurfum við að vinna.“

Kári er alls ekki á því að íslenska liðið sé úr leik þrátt fyrir að erfitt verkefni er eftir gegn Austurríki þar sem strákarnir þurfa helst sigur. Þrjú stig í Saint-Denis eftir fjóra daga tryggja okkar mönnum sæti í 16 liða úrslitunum.

„Við gátum stolið sigrinum á móti Portúgal á lokamínútunum og við hefðum getað stolið sigrinum aftur hérna á lokasekúndunum. Við erum ekki grafnir enn þá. Við erum vel inn í þessu móti. Planið hefur alltaf verið að komast upp úr riðlinum og það breytist ekkert,“ sagði Kári, en hvað gerðist í jöfnunarmarkinu?

„Það er eins og við höngum ekki alveg með þeim. Þeir fara í veggspil við teiginn og við erum ágætlega staðsettir. Hefði maðurinn gefið á einhvern annan hefðum við neglt þessum bolta upp í stúku en hann nær að troða boltanum á milli mín og Hannesar. Birkir Már er meira að segja mjög vel staðsettur en boltinn skoppar bara illa fyrir hann.“

Miðvörðurinn öflugi sem átti góðan leik er stoltur af frammistöðu liðsins en það er samt enn ýmislegt sem okkar menn geta lagað og þurfa að gera það fyrir síðasta leikinn.

„Við getum allir verið stoltir af varnarleiknum en við þurfum að bæta ýmislegt í sóknarleik og uppspili. En við verjumst eins og lið og sækjum eins og lið. Þetta snýst ekkert um varnarmenn eða sóknarmenn heldur er það allt liðið sem þarf að spila boltanum betur þannig við getum skapað okkur tækifæri með einhverju öðru en löngum sendingum,“ sagði Kári Árnason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×