Erlent

Mótmælendur réðust á stuðningsmenn Trumps

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hundruð mótmælenda eltu uppi stuðningsmenn forsetaframbjóðanda repúblikana í Bandaríkjunum, Donalds Trump, og veittust að þeim með ofbeldi eftir að kosningafundi Trumps lauk í San José í Kaliforníu í fyrrinótt. Blaðamenn The Guardian sem voru á vettvangi segja meginþorra ofbeldis­manna hafa verið ungmenni.

Mótmælendur höfðu safnast saman fyrir utan samkomusalinn áður en fundurinn hófst og hrópað að stuðningsmönnum sem biðu í röð en þegar fundinum lauk hlupu mótmælendur á eftir stuðningsmönnum og spörkuðu í einhverja þeirra og kýldu á meðan aðrir börðust á móti. Hópur mótmælenda umkringdi unga konu, hrækti á hana, kastaði í hana flöskum og eggjum. Mótmælendur lokuðu einnig bílastæði af svo stuðningsmenn kæmust ekki í burtu, brutu bílrúður og bílljós.

John Podesta, kosningastjóri Hillary Clinton, líklegs frambjóðanda flokks demókrata og andstæðings Trumps, fordæmdi árásina á Twitter­ í gær. „Ofbeldi gegn stuðningsmönnum nokkurs frambjóðanda á ekki heima í þessari kosningabaráttu,“ tísti Podesta.

Sam Liccardo, borgarstjóri San José, kenndi Trump sjálfum hins vegar um atvikið. „Við erum andvíg því að nokkur stjórnmálamaður snúi borgurum okkar hverjum á móti öðrum fyrir eigin ávinning,“ sagði Liccardo.

Fréttin birtist fyrst í Fréttblaðinu 4. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×