Erlent

Muhammad Ali fallinn frá

Bjarki Ármannsson skrifar
Bandaríska hnefaleikagoðsögnin Muhammad Ali er látin, 74 ára að aldri.

Ali lést á spítala í borginni Phoenix þar sem hann var lagður inn á fimmtudag. Hann lést af völdum veikinda í öndunarfærum en hann hafði glímt við Parkinsonssjúkdóm undanfarin ár.

Ali var einn þekktasti íþróttamaður sögunnar. Hann fæddist í Kentucky-ríki árið 1942 og var skírður Cassius Marcellus Clay. Hann hlaut fyrst heimsfrægð með því að vinna gullverðlaun í hnefaleikum á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960.

Með sigri sínum á Sonny Liston árið 1964 varð Ali heimsmeistari í fyrsta sinn en hann átti eftir að vera fyrstur allra til að vinna þrjá heimsmeistaratitla í þungavigt. Hlaut hann viðurnefnið „Sá besti“ (e. The Greatest) fyrir erfiðið. Hann lagði hanskana á hilluna árið 1981 og hafði þá unnið 56 af 61 slag á ferlinum.

Hann var þó einnig þekktur fyrir ummæli sín og störf utan hnefaleikahringsins. Ali var skáld, með eindæmum orðheppinn og ötull baráttumaður fyrir mannréttindum svertingja. Hann tók upp íslamstrú og nafnið Muhamad Ali á sjöunda áratugnum.

Þá var hann sviptur keppnisréttindum í fjögur ár eftir að hann óhlýðnaðist herkvaðningu vegna andstöðu sinnar við Víetnam-stríðið.

Hann greindist með Parkinsonsjúkdóm stuttu eftir að íþróttaferli hans lauk. Hann kom reglulega fram opinberlega nokkurn veginn allt til dauðadags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×