Innlent

Höskuldur gagnrýnir foringjadýrkun en aðrir styðja Sigmund

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Höskuldur Þórhallsson
Höskuldur Þórhallsson
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að á miðstjórnarfundi flokksins sem fram fór í laugardag hafi komið fram hörð gagnrýni á formann flokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. „Það er greinilega töluverð undiralda í flokknum og hún kom fram á fundinum,“ segir Höskuldur.„Ef ég á að segja alveg eins og er, þá hef ég aldrei orðið vitni að viðlíkri foringjadýrkun sem virðist vera hjá mjög fámennum en duglegum hópi innan Framsóknarflokksins,“ segir Höskuldur enn fremur. Aðspurður hvort hann hyggi á formannsframboð segir hann aðra hluti sér ofar í huga á þessari stundu. Hann hafi hugsað sér að bjóða sig aftur fram til þings.„En ég neita því ekki að ég hef miklar áhyggjur af flokknum eins og staðan er akkúrat núna. Ég tel að við þurfum að hugsa vel hvernig við viljum ganga til kosninga. Hvort við viljum ganga til kosninga og ræða góð mál, ræða framtíðina og það sem vel hefur gengið eða hvort við viljum ræða Panamaskjölin og vera í sífelldri varnarbaráttu, ég tel að kosningabaráttan gæti, ef heldur fram sem horfir, snúist um það, en ég vona ekki,“ segir Höskuldur.

Páll Jóhann Pálsson
Aðrir þingmenn flokksins sem Fréttablaðið náði tali af, þau Páll Jóhann Pálsson, Willum Þór Þórsson, Haraldur Einarsson, Þórunn Egilsdóttir og Ásmundur Einar Daðason segja að fundurinn hafi verið góður, að opinskáar umræður hafi átt sér stað en fólk hafi yfirgefið fundinn sátt.Þórunn Egilsdóttir segir sína tilfinningu hafa verið að Sigmundur Davíð myndi að öllum líkindum leiða flokkinn í næstu kosningum. „Ég gat ekki annað merkt á miðstjórnarfundinum. Mér fannst það koma nokkuð skýrt fram,“ segir Þórunn. Páll Jóhann tekur í sama streng og segist hafa upplifað fundinn þannig. Það gerir Willum Þór sömuleiðis sem og Ásmundur Einar.„Ég held það séu samt flestir á því að það hefði verið æskilegra að kjósa á eðlilegum tíma en það er búið að tala um þetta og menn eru tilbúnir að standa við það,“ segir Páll Jóhann um fyrirhugaðar kosningar í haust. Aðrir þingmenn flokksins sem Fréttablaðið náði í tóku í sama streng. Þau vilji standa við gefin fyrirheit en fyndist ef til vill skynsamlegra að kjósa í vor. Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. júní


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.