Erlent

Krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð forsetans

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/epa
Þúsundir komu saman víða í Venesúela í dag til þess að krefjast þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um framtíð Nicolas Maduro, forseta landsins, í embætti. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í landinu og stendur það yfir í tvo mánuði.

Mótmælin hafa nú staðið yfir í þrjá daga en um er að ræða ein stærstu mótmæli í sögu landsins. Öryggissveitir og lögregla beittu táragasi á mótmælendur í dag sem svöruðu fyrir sig með grjótkasti.

Neðanjarðarlestarkerfið liggur að mestu niðri en stjórnvöld segja það þó vegna tæknilegra ástæðna. Því eru stjórnarandstæðingar þó ekki sammála og segja það eina leið yfirvalda til þess að reyna að koma í veg fyrir að fólk geti komið saman og mótmælt.

Maduro setti í síðustu viku neyðarlög sem eiga að veita hernum og lögreglu aukin völd. Þingið hefur hafnað lögunum, segja að um sé að ræða einræðistilburði, og segja að herinn þurfi að velja á milli þess hvort hann vilji virða stjórnarskrá landsins eða fara að fyrirmælum forsetans.

Tæplega tvær milljónir manna hafa skrifað undir áskorun þess efnis að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð forsetans en samkvæmt stjórnarskrá landsins þurfa að minnsta kosti 20 prósent atkvæðisbærra manna að skrifa undir svo hægt verði að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu, eða um fjórar milljónir íbúa.

Alvarlegt ástand ríkir í Venesúela og er efnahagur landsins í molum. Óðaverðbólga ríkir, skortur er á mat og lyfjum og rafmagn takmarkað. Stjórnarandstæðingar kenna Maduro um ástandið sem ríkir og krefjast þess að hann fari frá. Hann segist hins vegar ætla að sitja áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×